Frá því að veitingastaðurinn Lemon, sem opnaður verður í mars, auglýsti eftir starfsfólki á laugardaginn hafa rúmlega 300 mann sótt um vinnu hjá staðnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá eigendum Lemon en þeir auglýstu sl. laugardag eftir starfsfólki á aldrinum 18-35 ára.

„Viðbrögðin komu [okkur] skemmtilega á óvart,“ segir í tilkynningunni frá þeim Jóni Gunnari Geirdal og Jóni Arnari Guðbrandssyni.

„Í tilefni af þessum viðtökum höfum við ákveðið að bjóða öllum sem hafa sótt um starf að mæta í áheyrnarprufur miðvikudaginn 13.febrúar því við viljum hitta allt þetta frábæra fólk.“

Enn er hægt að sækja um vinnu á veitingastaðnum sem opnaður verður á Suðurlandsbraut. Um er að ræða heilsuveitingastað sem verður opin frá kl. 7 á morgnana til kl. 20 á kvöldin. Fyrirmyndir Lemon eru staðir eins og Joe & the Juice í Danmörku og Pret A Manger, sem er stærsti skyndibitasali í Bretlandi.

„Eitt af gildum Lemon er að við borgum ekki eins lág laun og við komumst upp með, heldur eins góð og við getum,“ segir loksins í tilkynningunni.