Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum veltir upp þeirri spurningu hvort hagstæðara sé að eiga eða leigja húsnæði í grein á umræðuvef bankans . Á síðustu misserum hefur leiguverð hækkað umfram kaupverð og til að mynda hefur leiguverð hækkað um 9,1% á höfuðborgarsvæðinu síðustu 12 mánuði.

Ari tók saman gögn um íslenskan húsnæðismarkað 15 ár aftur í tímann og skoðaði með tilliti til hlutfalls á milli kaupverðs og leiguverðs. Slíkur mælikvarði er að sögn Ara algengur erlendis og er hlutfall yfirleitt kallað price to rent ratio, eða verð/leiguhlutfallið. Markaðsverð eignar er borið saman við ársleigu sömu eða sambærilegrar eignar og ársleigu á fermetra deilt upp í kaupverð á fermetra.

Þegar þetta hlutfall er skoðað þá má komast að eftirtöldum niðurstöðum:

  • Ef hlutfallið er undir 15 - Hagstæðara að kaupa
  • Ef hlutfallið er á bilinu 16-20 - Betra að kaupa ef áætlaður eignartími er langur
  • Ef hlutfall yfir 20 - Hagstæðara að leigja

Þegar íslenskur markaður er skoðaður þá sést að undanfarin fimmtán ár hefur nánast alltaf borgað sig að eiga frekar en að leigja samkvæmt Ara. „Myndin sem út úr þessu kemur sýnir greinilega að nánast alltaf hefur verið hagstæðara að kaupa húsnæði en leigja á höfuðborgarsvæðinu og það á sérstaklega við nú. Hið reiknaða verð/leiguhlutfall er m.ö. o. mun lægra hér en víðast hvar annars staðar. Meðalhlutfallið yfir allt þetta 15 ára tímabil er 14,2 og hlutfallið á síðustu árum hefur verið í kringum 12, sem er auðvitað langt fyrir neðan töluna 15 sem nefnd var sem þumalfingurregla. Tímabilið 2005-2009 sker sig samt nokkuð úr, þá var tiltölulega hagstæðara að leigja en annars hafði verið og á þeim árum gekk yfir eitthvert mesta kaupæði sem við þekkjum,“ segir Ari.

Hafa ber í huga að hér er um mjög einfaldan samanburð að ræða og má gera ýmsa fyrirvara við niðurstöðuna. „Gera má að því skóna að líklegra sé að kostnaðurinn við að eiga húsnæði sé vanmetinn, frekar en kostnaðurinn við að leigja. Kostnaður við að eiga eru t.d. fasteignagjöld, eigna- og tekjuskattar, viðhald, tryggingar, lána- og vaxtakostnaður, þinglýsingargjöld, sölulaun og gjöld í hússjóði svo eitthvað sem nefnt. Á móti vega t.d. vaxtabætur. Hvað húsaleiguna varðar skiptir t.d. máli hvort rafmagn, hiti, gjöld í hússjóð og annar álíka kostnaður sé innifalinn í leiguverði og þar vega þá húsaleigubætur á móti. Samanburðurinn er því alls ekki einfaldur og er auðvitað mun flóknari en verð/leiguhlutfallið segir til um, þó það segi vissulega ákveðna sögu um heildarstöðuna á markaðnum,“ segir Ari.

Leigja eða kaupa? Mynd tekin af vef Landsbankans.
Leigja eða kaupa? Mynd tekin af vef Landsbankans.