Björgólfur Thor Björgólfsson hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann telur upp og fjallar um þau lán sem að honum snúa en í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er á nokkrum stöðum fjallað um lán hans og tengdra aðila.

Björgólfur segir heildarniðurstöður skýrslu rannsóknarnefndarinnar óvéfengjanlegar og í nýlegri grein bað hann Íslendinga afsökunar á sínum hlut í hruni fjármálakerfisins.

„Eitt af því sem er ámælisvert og fram kemur í skýrslunni eru miklar lántökur stærstu eigenda bankanna. Ég er þar ekki undantekning,“ segir Björgólfur Thor.

„Umsvif mín sem alþjóðlegs fjárfestis hafa undanfarin ár verið mikil og lengi vel mjög farsæl. Sem lið í því átti ég viðskipti við lánastofnanir, sem í mörgum tilvikum sóttust eftir þeim viðskiptum að fyrra bragði. Þrátt fyrir að stærsti hluti lánaviðskipta minna hafi verið við erlendar fjármálastofnanir, þá sé ég núna að eðlilegra hefði verið fyrir mig sem alþjóðlegan fjárfesti að beina lánaviðskiptum mínum enn frekar frá Íslandi. Eftir stendur að þessi lán voru veitt og vil ég hér greina frá því hvert þessir peningar fóru.“

Í greinargerð sem fylgir yfirlýsingu Björgólfs gerir hann sem fyrr segir grein fyrir þessum lánum, tilurð þeirra, verkefnum sem fjármunirnir runnu til og stöðu þeirra í dag.

„Þá leiðrétti ég jafnframt rangfærslur sem finnast í rannsóknarskýrslunni en nefndin óskaði hvorki eftir upplýsingum frá mér, né kallaði mig til viðtals og gaf mér því ekki kost á að svara þeim aðfinnslum eða rangfærslum sem að mér beinast,“ segir Björgólfur Thor í yfirlýsingunni.

Björgólfur Thor nefnir sem dæmi fullyrðingar um að hann hafi teið lán hjá Landsbankanum vegna Actavis örfáum dögum fyrir fall Landsbankans.

„Ég hef áður lýst því, að dregið var á þetta lán í áföngum frá apríl fram í september 2008. Fyrir láninu voru fullkomlega eðlilegar viðskiptalegar forsendur, tryggingar voru öruggar og lánið verður gert upp að fullu, líkt og önnur lán mín,“ segir Björgólfur Thor.

„Eins og stendur á ég í viðræðum við lánardrottna og stefni ég að því að gera upp allar mínar skuldir við íslenskar lánastofnanir sem og erlendar. Eigur mínar standa að baki því uppgjöri og hef ég afhent lánardrottnum mínum ítarlegt yfirlit allra minna eigna. Ég einbeiti mér að þessu skuldauppgjöri á næstu árum og vil ljúka því með sóma.“

Greinagerð Björgólfs Thors er eftirfarandi og er hér birt óbreytt:

Áhættuskuldbindingar Björgólfs Thors Björgólfssonar og tengdra aðila

Hér er gerð grein fyrir þeim lánum í íslenskum bönkum sem tengjast Björgólfi Thor Björgólfssyni og tengdum aðilum skv. töflu á blaðsíðu 6 í viðauka 9 í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Skýrsla rannsóknarnefndar tiltekur eingöngu þá fjárhæð sem hefur verið lánuð en tekur ekkert á hvaða tryggingar standa á móti þeim lánum eða hvenær lánin voru tekin. Þegar farið er yfir töflu rannsóknarnefndar um lánin kemur glöggt í ljós að stærstu einstöku lánin eru bein lán til Actavis eða lán tengd því félagi, sem er eitt stærsta og öflugasta fyrirtæki landsins. Fyrir því voru margvísleg rök að það fyrirtæki beindi viðskiptum sínum að hluta til innlendra fjármálafyrirtækja.

Mörg af lánum Björgólfs voru tryggð með handveði í innlánum og því ekki um neina útlánaáhættu að ræða, þ.e. bankinn tryggði að hann myndi ekki verða fyrir tjóni þótt lántakandi gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar með því að hafa fullnægjandi eignir á móti sem tryggingu.

Félög tengd Björgólfi voru með rúmlega 50 milljarða króna (300 milljónir evra) reiðufé í innlánum hjá Landsbankanum við fall hans. Voru það fjármunir sem komu til vegna söluhagnaðar erlendra eigna og vörðuðu að engu leyti íslenskt efnahagslíf. Þá hafa eignir verið seldar og lán, sem tiltekin eru í töflunni, verið endurgreidd, sbr. Novator Finland Oy.

Í töflunni hér að neðan, sem fengin er á bls. 6 í viðauka 9 við skýrslu rannsóknarnefndarinnar eins og áður sagði, má sjá yfirlit yfir útlán til félaga tengdum Björgólfi auk þess sem bætt hefur verið við dálki sem sýnir raunverulega útlánaáhættu, lántökudag og hvaða veð liggja á bak við lánin.* Sé tekið tillit til innlána þá kemur einnig fram að áhættuskuldbindingar eru samtals 128.476 milljónir króna en ekki 170.427 milljónir króna eins og segir í skýrslu rannsóknarnefndar. Skeikar þar 41.951 milljón króna.

  • Félag                                            LÍ        Straumur   Útlánaáhætta    Lán/ábyrgð veitt    Veð
  • AB Capital ehf.                                           3.985          3.985               maí 2005                 Landareign
  • BeeTeeBee Ltd                      26.942                         26.942               júní / sept 2008      Hlutafé ACT og innlán
  • Björgólfur T Björgólfsson       2.358       2.358                                    mars 2005              Landareign
  • Blizzard Capital Ltd                  1.679                            1.679               mars 2006              Erl. hlutabréf
  • Milburn Global Ltd                  18.716                                    0              nóvember 2007      Innlán
  • Nov. Asset Management         5.660                            5.660              nóvember 2005      Hlutabréf
  • Nov. Finance Ltd                       9.369                            9.369              sept 2006 / 2007    Skuldabréfasjóður
  • Nov. Finland Oy                         8.224                                    0              júlí 2007                   Hlutabréf
  • Nov. Int Holding Ltd                  6.060                                    0              janúar 2008             Innlán
  • Nov. Partners ehf                      2.961                                    0              maí 2006                  Ábyrgð á leigu
  • Nov. Partn-Prop H 1 ehf                           4.800            4.800              mars 2006               Erl hlutabréf
  • Act. Pharma Holding 1           10.075   18.827          28.902              ágúst 2007              Hluta til fjárfesting og hluta til lán
  • Act. Pharma Holding 2           39.462                          39.462              ágúst 2007             Rekstrarábyrgð
  • Nov. Prop Sarl                                            1.282             1.282             júlí 2008                  Erl. hlutabréf
  • Nov. Telecom Bulgaria Ltd      5.990                                     0             desember 2007    Innlán
  • Rosetta Investors Ltd               1.608                             1.608             júlí 2007                  Hlutabréf
  • Annað                                          1.096      1.333             2.429             2006 - 2008           Fasteignir í Reykjavík
  • Samtals                                  141.482    28.945        128.476

*Hér eru aðeins tilgreind þau lán í töflu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem lánsfjárhæð var yfir 1.000 milljónir króna. Minni lán falla undir liðinn „Annað” og því eru samtalstölur sambærilegar.

Einnig sést að Björgólfur fékk aðeins eitt lán frá Landsbankanum árið 2008 og eitt lán frá Straumi og voru þau vegna hlutafjáraukningar í Actavis og fasteignaverkefna í Danmörku. Lántökuár þeirra lána sem eru útistandandi í dag sést hér að neðan.

  • Ár         Fjárhæð
  • 2005   12.003
  • 2006   13.477
  • 2007   69.972
  • 2008    26.942

Hér á eftir er fjallað um ofangreind lán og verkefni þeim tengd og annað sem máli skiptir.

AB Capital ehf.

AB Capital ehf. er félag sem stofnað var um landakaup á Spáni. Kaupin voru kynnt fyrir Björgólfi af Róberti Wessman í janúar 2005. Félagið er í meirihlutaeigu Róberts (51%) og er stýrt af honum, en eignarhlutur Björgólfs er 45%. Lánið er frá því í maí árið 2005 en á þeim tímapunkti var Björgólfur ekki í stjórn Straums og átti ekki teljandi hlutabréf í bankanum. Verkefnið hefur mistekist hrapallega þar sem ekki var unnt að fá byggingarleyfi í tæka tíð og fasteignamarkaður á Spáni er nú í mikilli lægð.

Umrætt lán í Straumi hefur verið endurfjármagnað nokkrum sinnum á tímabilinu. Lánsfjárhæð Straums til félagsins er 26 milljónir evra og var lánið síðast framlengt í júní 2008 og þá greiddir uppsafnaðir vextir. Veð vegna lánsins er í umræddri landareign á Spáni.

BeeTeeBee Ltd.

Um er að ræða félag í beinni eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar og er helsta eign þess eignarhlutur í Actavis Group hf. Í töflunni koma fram tvö lán að fjárhæð 95 milljónir evra og 90 milljónir evra.

Lán að fjárhæð 95 milljónir evra var veitt í september 2007 frá Landsbankanum í Lúxemborg og eru tryggt að fullu með handveði í reiðufé í sama banka. Hér er ekki um útlánaáhættu að ræða hjá Landsbankanum í Lúxemborg, því bankinn getur innheimt lánið að fullu með því að ganga að umræddu reiðufé.

Þar til viðbótar er lán að upphæð 90 milljónir evra. Umrætt lán var veitt í nokkrum áföngum og var hlutafé greitt til Actavis frá apríl til september 2008. Við fall Landsbankans stóð þetta lán í 154 milljónum evra og var allt vegna hlutafjáraukningar í Actavis.

Vegna rekstrarerfiðleika sem komu upp hjá Actavis vegna tímabundinnar lokunar á verksmiðju í Bandaríkjunum fyrri hluta árs 2008 þurfti félagið rekstrarfjármagn til að geta staðið við skuldbindingar sínar. Þegar þetta varð ljóst var samið við Landsbankann um fjármögnun á þeirri hlutafjáraukningu sem kæmi í hlut Novator vegna aukningar á hlutafé í Actavis.

Þar sem ekki var þörf á öllu fjármagninu strax inn í Actavis var hlutafjáraukningin fjármögnuð í skrefum. Félög í eigu Björgólfs Thors greiddu fjármuni inn í Actavis í fyrsta skipti í apríl 2008, sem fjármagnað var af Landsbankanum Lúxemborg, og síðan jafn og þétt uns samningar tókust við Deutshe Bank í september 2008 um hlutafjáraukningu gegn endurfjármögnun. Síðasta greiðslan var í lok september og nam hún 64 milljónum evra. Greiðslur voru skv. neðangreindu (tölur eru í milljónum evra):

  • April          15
  • Maí            15
  • Júní           20
  • Júlí             20
  • Ágúst         20
  • Sept           64
  • Samtals  154

Það er því ekki rétt sem ætla má af umfjöllun skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um lánafyrirgreiðslur til félags Björgólfs Thors frá Landsbankanum í lok september 2008 að um nýtt lán hafi verið að ræða. Þetta var síðasta útborgun á láni sem var samþykkt í mars 2008. Tryggingar voru veð í breytanlegu skuldabréfi í Actavis, sem í raun þýðir að veð er í hlutabréfum Björgólfs Thors í Actavis, auk annarra trygginga sem metnar voru góðar. Lánið er í skilum og verður gert upp að fullu.

Björgólfur Thor Björgólfsson

Lánið er ekki persónulegt lán til Björgólfs Thors heldur er lán til AB Capital ehf. sem um var getið hér að ofan og var að fjárhæð 35 milljónir evra. Lánið var veitt í mars árið 2005 og tryggingar og veð Landsbankans við lánveitingu voru 150%.

Blizzard Capital Ltd.

Um er að ræða tvö lán með handveði í hlutabréfum. Fyrra lánið var veitt í mars árið 2006 og er tryggt með handveði í hlutabréfum í félagi sem skráð er á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum. Fjárhæð lánsins er um 8 milljónir evra.

Síðara lánið var veitt í júlí 2007 og er tryggt með handveði í hlutabréfum í verðbréfasjóði með eignir í erlendum hlutabréfum. Veðhlutfall var 50% við lánveitingu. Fjárhæð þessa láns er um 4 milljónir evra.

Milburn Global Ltd.

Lán að fjárhæð 128 milljónir evra sem veitt var af Landsbankanum í Lúxemborg í nóvember 2007. Lánið er að fullu tryggt með handveði í reiðufé í Landsbankanum í Lúxemborg og áhætta bankans vegna útlánsins því engin.

Novator Asset Management Ltd.

Lán frá Landsbankanum í Lúxemborg frá nóvember 2005 að fjárhæð 18 milljónir evra og síðan til viðbótar 20 milljónir í janúar 2008. Lánið er tryggt með handveði í 20% eignarhlut Björgólfs í eignastýringafélagi í London en það félag er ekki tengt Novator eða Björgólfi með öðrum hætti.

Lánið stendur í 39 milljónum evra. Lánið var útistandandi við fall Landsbankans og viðræður standa yfir við skiptastjóra Landsbankans í Lúxemborg. Markaðsverð félagsins var talið um 500 milljónir evra í ársbyrjun 2007 og er möguleiki á að arðgreiðslur geti verið nægjanlegar til að greiða niður þau lán sem hvíla á félaginu.

Novator Finance Ltd.

Landsbankinn í Lúxemborg lánaði fjármuni til Novator Finance Ltd. til að kaupa eignarhlut í Novator Credit sjóðnum. Lánið var veitt í september 2006 og september 2007. Veð er í bréfum í skuldabréfasjóðnum en auk þess er bakábyrgð frá BeeTeeBee Ltd. Tryggingar eru því traustar.

Verið er að slíta Novator Credit sjóðnum og er reiknað með að það gerist að fullu innan þriggja ára.

Novator Finland Oy

Novator Finland OY var með lán upp á 212 milljónir evra þegar mest var í febrúar 2008. Lánið var tryggt með veði í skráðum finnskum hlutabréfum. Lánið var greitt að stórum hluta í mars 2008 og að fullu þann 2. júlí 2009 þegar undirliggjandi eignir voru seldar. Við sölu þeirra bréfa þann 2. júlí 2009 var lánið greitt upp að fullu.

Novator International Holdings Ltd.

Novator International Holdings Ltd. var með lán að fjárhæð 42 milljónir evra sem tryggt var með handveði í peningafjárhæð í eigu félagsins inni á reikningi hjá Landsbankanum í Lúxemborg. Áhætta bankans vegna útlánsins er því engin. Lánið var veitt í janúar 2008.

Novator Partners ehf.

Ábyrgð vegna húsaleigusamnings Novator Partners LLP í Bretlandi sem veitt var í maí 2006. Um hefðbundna ábyrgð vegna slíkra samninga er að ræða og fjárhagsstaða umrædds félags var traust og hefur húsaleiga ávallt verið í skilum. Við fall Landsbankans var ábyrgðinni ekki lýst í búið og því reynir ekki á hana.

Novator Partners-Properties Holdings 1 ehf. (Hét áður Samson Partners Properties Holdings)

Straumur lánaði félaginu 303 milljónir danskra króna í mars 2006 vegna kaupa á hlut í dönsku fasteignafélagi. Þetta lán var greitt niður í 227 milljónir á tímabilinu 2006-2007. Lánaveð var í hlutabréfum í fasteignafélagi í Danmörku. Lán þetta var í skilum. Félagið er, eftir því sem næst verður komist, enn í rekstri. Umrætt félag var, beint eða óbeint, í meirihlutaeigu Samson eignarhaldsfélags ehf sem varð gjaldþrota í október 2008. Í kjölfar gjaldþrots þess hefur skiptastjóri Samson eignarhaldsfélags farið með þennan eignarhlut í gegnum meirihluta sinn í Novator Properties (Kýpur).

Novator Pharma Holdings 1 (félagið heitir Actavis Pharma Holdings 1 hf.)

Bein fjárfesting Straums og Landsbankans í Actavis Group hf. þegar félagið var skráð af markaði í ágúst 2007. Hér er því ekki um lán að ræða heldur fjárfestingu í hlutafé.

Landsbankinn fjárfesti fyrir 50 milljónir evra og Straumur fyrir 80 milljónir evra.

Novator Pharma Holdings 2 (félagið heitir Actavis Pharma Holdings 2 ehf.)

Lán frá Straumi og Landsbanka til Actavis þegar félagið var tekið af hlutabréfamarkaði í ágúst 2007. Yfirtakan var að stærstum hluta fjármögnuð af Deutsche Bank. Hlutur íslensku bankanna var eingöngu um 6% af heildarfjármögnun og er þá talið bæði hlutafé og lánsfé. Við yfirtökuna fékk Landsbankinn endurgreidd lán frá Actavis að fjárhæð 75 milljarða króna (515 milljón evra) frá félaginu.

Þar til viðbótar fékk bankinn endurgreidd lán frá einstaklingum sem voru með hlutabréf frá Actavis fjármögnuð hjá bankanum og má því gera ráð fyrir að Landsbankinn hafi fengið endurgreidda tæpa 90 milljarða króna (600 milljónir evra) við yfirtökuna.

Landsbankinn ákvað að endurfjárfesta innan við helming af þeirri fjárhæð í Actavis í formi láns og hlutafjár. Lánsfjárhæðin, sem er hluti af lánapakka Deutsche Bank, nam 200 milljónum evra frá Landsbankanum og 100 milljónum evra frá Straumi og er í báðum tilvikum um að ræða eingreiðslulán til 11 ára. Lánið er í evrum og ber 23% vexti.

Novator Properties Sarl (- hét áður Samson Properties Sarl)

Straumur lánaði félaginu 64 milljónir danskra króna í júlí og 52 milljónir danskar í september 2008 vegna þátttöku í fasteignaverkefnum í Danmörku. Veð var tekið í hlutabréfum í fasteignafélögum þeim sem halda utanum verkefnin. Lán þetta var í skilum. Félagið er, eftir því sem næst verður komist, enn í rekstri.

Umrætt félag var, beint eða óbeint, í meirihlutaeigu Samson eignarhaldsfélags ehf sem varð gjaldþrota í október 2008. Í kjölfar gjaldþrots þess hefur skiptastjóri Samson eignarhaldsfélags farið með þennan eignarhlut í gegnum meirhluta sinn í Novator Properties (Kýpur).

Novator Telecom Bulgaria Ltd.

Ábyrgð frá Landsbankanum frá desember 2007 vegna skuldbindinga félagsins Novator Telecom Bulgaria Ltd. til þriðja aðila að fjárhæð 41 milljón evra. Ábyrgðin var tryggð með handveði í reiðufé í Landsbankanum í Lúxemborg og var áhætta bankans því engin.

Rosetta Investors Ltd.

Lán til félags í eigu Björgólfs Thors frá júlí 2007. Lánið var tryggt með eignum félagsins í Samson Global Holdings Sarl. og með ábyrgð frá móðurfélagi þess Valhamar Ltd. en það félag hafði sterkt eigið fé fram að falli bankanna.