Pálmi Haraldsson hefur sent fjölmiðlum yfirlýsingu vegna fréttar sem sögð var í kvöldfréttum RÚV í gær.

Yfirlýsing Pálma í heild:

„Svavar Halldórsson fréttamaður RÚV flutti enn eina fréttina um málefni tengd mér í fréttum í gærkvöldi.  Þar fjallaði hann um viðskipti með hlutafé í breskum verslunum Iceland og  gerði þau tortryggileg með því að vísa í ónafngreindan heimildarmann og kalla viðskiptin flóknustu ,,skítafléttu“ íslenskrar viðskiptasögu.  Því var svo bætt við, að angar viðskiptanna væru nú til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara.

Ég hef komið nálægt mörgum viðskiptum, sum hafa gengið vel, önnur síður.  Stolt mitt á mínum ferli er aðkoma mín að kaupunum á bresku verslunarkeðjunni Iceland árið 2005. Kaupin hafa verið talin ein best heppnuðu kaup á breskum markaði á þessum áratug.  Frá fyrsta degi gekk rekstur verslananna framúrskarandi, sölutölur voru upp á við og ásamt hagræðingu í rekstri, var fjárfestingin fljót að skila sér í afkomu félagsins, enda  fór hún fram úr björtustu vonum.

Vegna þessa hækkaði verðmæti hlutafjárins og eftir því sem ég veit best, er það enn að hækka og er ein aðaleign íslenska þjóðarbúsins í gegnum skilanefnd Landsbanka Íslands hf.   Hvers vegna var þessa ekki getið í frétt RÚV í gær?

Í fréttinni kom heldur ekki fram, að skilanefnd Landsbanka Íslands hf. hafnaði nýverið tilboði forstjóra Iceland í hlutafé þess uppá  1 milljarð breskra punda.  Skilanefndin taldi verðið ekki ásættanlegt.  Það sér hver heilvita maður að það hlýtur að skipta verulegu máli varðandi inntak fréttarinnar hvers virði hluturinn er í dag?  Það vekur vekur undrun mína, að yfirmenn fréttamannsins hafi ekki talið það skipta máli – nema þeir hafi ekki lesið fréttina yfir.

Einnig sagði að af söluverði Fons frá árinu 2008 hafi tveir milljarðar ekki skilað sér. Enn einu sinni gefur fréttamaðurinn í skyn, að refsivert athæfi hafi verið framið í starfsemi Fons.   Á þessum tíma var allur hlutur Fons í Iceland veðsettur Landsbanka Íslands hf. Öllu kaupverðinu var ráðstafað í samráði við bankann.

Fyrir u.þ.b. hálfu ári flutti fréttamaðurinn Svavar Halldórsson frétt um mig, undir yfirskriftinni "2,5 milljarðar hurfu í reyk".  Dróttaði Svavar þar að mér um refsiverða háttsemi.  Viðbrögð mín við því voru að höfða meiðyrðamál gegn Svavari.  Í því máli er útskýrt og lögð fram gögn um að í bókhaldi Fons er fært, hvað varð um lánsfjárhæðina.  Hún hafi ekki horfið og tal um "reyk" fjarstæðukennt.  Síðan hefur Svavar flutt nokkrar fréttir um mig, sem virðast ekki hafa annað að markmiði en að sverta æru mína.  Stíllinn hefur verið sá sami.  Stóryrtar fyrirsagnir, teiknimyndafígúrur, myndir af peningabúntum, nöfn, örvar á milli og tal um flóknar "viðskiptafléttur", sem hann kemur sér síðan hjá að útskýra.

Fyrir rúmum mánuði birtist ein þessara frétta, þar sem fram kom að 40 milljarða króna hagnaður dótturfélags Fons hf. í Lúxembourg, valdi skilanefndum og slitastjórnum heilabrotum, menn velti því fyrir sér hvað hafi orðið um féð.  Gefið var mjög sterkt til kynna að um væri að ræða hagnað, sem ég hafi innleyst í útlöndum.  Annaðhvort skildi Svavar ekki, eða hann vildi ekki um það upplýsa, að hagnaður téðs dótturfélags rann inn í bókhald Fons hf.  Innleystur hagnaður í útlöndum var enginn.  Ég birti fréttatilkynningu vegna þessa 16. september sl.  Í niðurlagi hennar segir:  "Að venju hafði Svavar Halldórsson ekki samband við mig við vinnslu fréttarinnar til að óska skýringa.  Sýnir þar Svavar enn og einu sinni að hann er ekki starfi sínu vaxinn.  Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Svavar Halldórsson flytur rangar og óskiljanlegar fréttir um málefni tengd mér eða Fons, sem eðlilegar skýringar eru á.  Í stað þess að afla upplýsinga fer hann fram með staðlausa stafi og byggir á einhverjum heimildum, sem enginn veit hverjar eru."

Yfirlýsingunni var ekki svarað.  Engin afsökunarbeiðni, leiðrétting eða athugasemd.  Áðurtilvitnað niðurlag á að öllu leyti við um frétt Svavars Halldórssonar í gær.  Þetta vekur spurningar um eftirlit fréttastjórnar RÚV með fréttamönnum sínum, og fréttastefnu í víðara samhengi.

Er það bjóðandi að RÚV skuli flytja fréttir af þessu tagi æ ofan í æ?“