„Tortóla virðist í beinni útsendingu vera orðinn banabiti ríkisstjórnarinnar“. Þetta ritar Össur Skarphéðinsson í nýlegri færslu á Facebook-síðu sinni.

Segir hann að í yfirlýsing Sigmundar hafi falist hótun um þingrof og um kosningar gagnvart formanni Sjálfstæðisflokksins ef þingmenn hans „treystu sér ekki til að styðja ríkisstjórnina.“

Kallar Össur þetta merkilegustu vendingar í stjórnakreppu sem hann muni eftir. Í fyrsta lagi sé líklegt að Framsóknarflokkurinn komi mjög illa út úr kosningum við þessar aðstæður og hótun forsætisráðherrans feli í reynd í sér að stærstum hluta þingflokks hans verði rutt af þingi út á hinar eilífu veiðilendur. Flestir flokkar, þ.á.m. Sjálfstæðisflokkurinn séu líklegri til að koma betur út úr kosningum.

Í öðru lagi bendir hann á að það sé krafa stjórnarandstöðunnar að þing verði rofið og nýjar kosningar boðaðar. Hótun forsætisráðherra um að beita sér fyrir kosningum færi því stjórnarandstöðunni sigur í núverandi þrætu á silfurbakka. Tillagan um vantraust virðist eiginlega búin að fella ríkisstjórnina áður en hún kemur á dagskrá þingsins. Ítrekar Össur að hann muni ekki eftir sérkennilegri vendingum í stjórnmálum.

Að lokum ritar hann: „Draumar Guðlaugs Þórs sem ég rétt í þessu heyrði á Bylgjunni um minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins við þessar aðstæður tel ég sjálfur útilokaða og óraunhæfa.“