Jessica Harper, fyrrverandi yfirmaður netöryggismála hjá Lloyds bankasamstæðunni hefur verið dæmd í fimm ára fangelsi fyrir fjársvik. Hún er talin hafa náð að svíkja út um 2,5 milljónir punda, andvirði um 500 milljóna króna, með því að falsa 93 reikninga. Síðar gaf hún peningana til vina og bræðra sinna svo að þeir gætu keypt fasteignir. Þetta kemur fram í frétt London Evening Standard.

Fjársvikin áttu sér stað yfir fjögurra ára tímabil en konan hafði búið til falskan bankareikning í nafni tölvufyrirtækis sem vann fyrir Lloyds.  Fyrir dómi kom fram að Harper hafði sagt lögreglu að hún hefði átt skilið meiri peninga fyrir að sýna tryggð við bankann þegar hún hefði getað þénað fjórum sinnum meira annars staðar. Hún neitaði því að hafa persónulega hagnast á fjársvikunum.

Deborah Taylor, dómarinn í málinu sagði við Harper að hún hefði verið yfirmaður í bankanum í stöðu þar sem mikið traust hefði verið lagt á hana á tíma þar sem bankinn naut stuðnings skattgreiðenda. Hún hefði hunsað skyldur sínar þegar hún hefði talið sjálfa sig eiga rétt á að taka peninga annarra til ávinnings fyrir sig og sína nánustu.