Fyrrum stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Landsvaka þrýstu á að 400 milljón króna skuldabréf útgefið af Björgólfi Guðmundssyni yrði keypt af fjárfestingasjóði Fyrirtækjabréfa Landsbankans í janúar 2005. Kaupin voru í andstöðu við fjárfestingastefnu sjóðsins og sjóðsstjóri hans var alfarið mótfallinn þeim. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Björgólfur Guðmundsson var, ásamt syni sínum Björgólfi Thor, stærsti einstaki eigandi Landsbankans og formaður bankaráðs hans. Landsbankinn er eigandi Landsvaka.

Gerði athugasemdir við kaupin

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram að við skýrslutöku af sjóðstjóra Fyrirtækjabréfasjóðsins, Guðrúnu Unu Valsdóttur, hafi komið fram að „stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Landsvaka hefðu ákveðið að kaupa skuldabréf útgefið af Björgólfi Guðmundssyni í janúar 2005[...]Engin veðtrygging var að baki bréfinu. Að sögn sjóðstjóra Landsvaka var tilgangur skuldara að stofna minningarsjóð fyrir andvirði lánsins“. Á þeim tíma var Stefán Héðinn Stefánsson stjórnarformaður Landsvaka. Hann er í dag aðstoðarforstjóri Saga fjárfestingabanka. Sigurður Óli Hákonarson var framkvæmdastjóri Landsvaka.

Guðrún Una sagði í skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni að hún hefði „gert athugasemdir við fjárfestinguna en framkvæmdastjóri Landsvaka og stjórnarformaður þrýstu á að bréfinu yrði bætt í safn Fyrirtækjabréfa“.

Til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara

Björgólfur notaði féð sem hann fékk að láni fyrir skuldabréfið, sem var án veða, til að stofna minningarsjóð um dóttur sína, Margréti Björgólfsdóttur. Viðskiptablaðið greindi frá því í dag að kaup sjóðsins á skuldabréfinu séu til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Ekki var greitt af skuldabréfinu eftir bankahrun en eftirstöðvar þess á þeim tíma voru um 190 milljónir króna. Björgólfur er persónulega gjaldþrota og námu kröfur í bú hans 96 milljörðum króna. Eignir eru taldar litlar sem engar. Um er að ræða stærsta persónulega gjaldþrot Íslandssögunnar.

Viðbót klukkan 13:50

Sigurður Óli Hákonarson, fyrrum framkvæmdastjóri Landsvaka, vill koma því á framfæri að hann hafi ekki þrýst á um kaup á umræddu bréfi. Hann bendir á að Landsvaki hafi nýverið birt ítarlega gagnrýni á umfjöllun um fyrirtækið í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Þar kemur fram að bréfið hafi verið keypt inn í sjóðinn vegna frumkvæðis stjórnarformanns Landsvaka, Stefáns Héðins Stefánssonar. Sjóðstjórar sjóðsins neituðu hins vegar að setja sitt nafn á viðskiptin. Athugasemdirnar má lesa hér.