Steven Tomlinson, rekstrarstjóri Excel Airways, og Paul Roberts, fjármálastjóri félagsins, hafa sagt upp störfum, segir í fréttatilkynningu.

Excel Airways er dótturfélag íslensku flutningasamstæðunnar Avion Group, en félagið hefur nýlega lokið innri rannsókn þar sem kom fram að dótturfélagið hafi ekki fylgt reikningsskilavenjum við meðhöndlun afsláttar fá breska félaginu Alpha Airports.

?Samkvæmt þeim reikningsskilavenjum sem Avion Group vinnur eftir hefði átt að tekjufæra afsláttinn hlutfallslega eftir því sem gjöld féllu til á samningstímanum. Nánari eftirgrennslan og niðurstaða innri rannsóknar leiddi í ljós mistök í þessu einstaka tilfelli," segir í tilkynningu frá Avion Group.

Málið hefur fengið töluverða umfjöllun í breskum fjölmiðlum og hefur leitt til þess að stjórnarformaður Alpha, Graham Frost, hefur einnig sagt upp störfum.

Avion tilkynnti einnig um fyrsta lið skipulagsbreytinga í yfirstjórn Excel Airways sem boðaðar voru á uppgjörsfundi Avion Group þann 30 júní síðastliðinn.

Halldór Sigurðarson tekur við sem fjármálastjóri og Davíð Örn Halldórsson hefur störf sem yfirmaður nýstofnaðrar upplýsingatæknideildar félagsins.

Halldór Sigurðarson hefur víðtæka reynslu úr flugrekstri. Undanfarið hefur hann gegnt starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs Avia Technical Services í Manston á Englandi.

Hann starfaði m.a. við endurskoðun hjá Deloitte áður en hann gekk til liðs við Air Atlanta Icelandic árið 2000. Halldór er 32 ára gamall og er viðskiptafræðingur af endurskoðunarsviði frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá Háskólanum í Kent á Englandi.

Davíð Örn Halldórsson er 32 ára gamall. Hann hefur fjölbreytta reynslu af verkefnastjórnum á upplýsingatæknisviði, bæði hjá Eimskip og Símanum. Áður starfaði hann við fjárstýringu hjá Carlsberg verksmiðjunum í Danmörku. Davíð er með
BA gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands.