FL Group keypti hlutabréf í Glitni fyrir um 10,5 milljarða króna síðastliðinn föstudag og nemur samalagður eignarhlutur félagsins í bankanum nú 33%. FL Group er komið upp að efstu mörkum áður en yfirtökuskylda myndast.

"Við fylgjumst með þessu og öllum breytingum á markaðnum sem koma nálægt yfirtökumörkum, hvort sem þau eru lögbundin eða bundin í samþykktum, þar með töldu þessu," segir Viðar Már Matthíasson, formaður Yfirtökunefndar.

Í 6. grein samþykkta Glitnis segir: "Ef hluthafi á meira en 1/3 hlutafjár og ræður yfir samsvarandi atkvæðamagni, geta aðrir hluthafar, hver um sig, krafist innlausnar hjá hluthafanum. Þá kröfu verða þeir að gera innan átta vikna frá því að þeir vita af þessum rétti sínum. Nái aðilar ekki samkomulagi um verð vísast til 22. greinar og 24. greinar laga númer 2/1995 um hlutafélög."

Fyrir viðskiptin átti FL Group 2.150.610.175 hluti og eftir viðskiptin eiga FL Group og tengdir aðilar 2.549.389.825 hluti. Viðar Már segir að almennt sé ekki lægri þröskuldur í hlutabréfaeign til þess að hægt sé að krefjast innlausnar hjá fjármálafyrirtækjum en öðrum fyrirtækjum. "Í öllum skráðum fyrirtækjum er miðað við 40%, sama hvers konar fyrirtæki það eru. En svo kann vel að vera að það sé í samþykktum einstakra félaga að það sé lægra," segir Viðar Már.

FL Group á sem fyrr segir 33% í Glitni eftir síðustu viðskipti og samkvæmt hluthafalista frá Glitni á Baugur Group um 1%. Aðspurður um hvort FL Group og Baugur teljist tengdir aðilar, og hlutafjáreign þeirra fari samanlagt yfir yfirtökumörk, segir Viðar Már að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins liggi fyrir um að Oddaflug og Baugur Group hafi ekki verið í samstarfi á sínum tíma þegar þeir juku hlut sinn í FL Group.

Annar stærsti eigandinn er Milestone ehf., sem er í eigu systkinanna Karls Wernerssonar, Ingunnar Wernersdóttur og Steingríms Wernerssonar, með 20,75%. Samkvæmt flöggun í Kauphöll Íslands á Baugur Group 1% hlutafjár og mun Yfirtökunefnd ætla að skoða sérstaklega hvort FL Group og Baugur teljist tengdir aðilar. Geta má að Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarformaður FL Group, er jafnframt starfsmaður Baugs.

"Hvort FL Group og Baugur eru (tengdir aðilar) núna er bara sérstakt athugunarefni. Yfirtökunefndin hefur ekki haldið fund um þetta mál en við höfum auðvitað tekið eftir þessu og munum skoða þetta," segir Viðar Már.

Matsfyrirtækið Moodys Investors Service ákvað nýlega að lækka mat sitt á fjárhagslegum styrkleika Glitnis í C í kjölfar þess að fyrirtækið telur áhættu bankans hafa aukist. "Aukin áhætta tengist meðal annars atriðum tengdum stjórnarskipan bankans, lánveitingum til tengdra aðila, og áhættu tengdri því að Glitnir hefur staðið í mörgum stórum yfirtökum á tiltölulega stuttum tíma," segir Moodys.

Fyrirtækið telur þó eignarhaldið ekki hafa áhrif á lánshæfi Glitnis og félagið hækkaði matið í Aaa á föstudaginn, sem er hæsta einkunn fyrirtækisins.