Aðili sem er yfirtökuskyldur getur ekki tekið ákvörðun um að selja sig niður til að koma sér hjá því að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð, nema að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins (FME). Þetta er álit FME eftir að hafa farið yfir framkvæmd annarra ríkja á reglum um yfirtökuskyldum.

Í frétt frá FME segir eftirlitið hafi að undanförnu haft til skoðunar yfirtökureglur og beitingu þeirra. "Tiltekin álitaefni varðandi túlkun og framkvæmd ákvæða IV. kafla laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti (vvl) og réttarúrræði Fjármálaeftirlitsins hafa komið upp. Fjármálaeftirlitið hefur kannað framkvæmd annarra Evrópuríkja, auk þess að leita upplýsinga á vettvangi Evrópusambandsins, enda byggja íslenskar yfirtökureglur að meginstefnu til á tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/25/EC (Yfirtökutilskipunin). Tilskipunin miðar að því að samræma yfirtökureglur í Evrópu og tryggja jafna meðferð og aukin rétt hluthafa í yfirtökutilvikum.

Niðurstaðan er sú að yfirtökuskyldum aðila er ekki í sjálfsvald sett að selja sig niður og losna þannig undan tilboðsskyldu og mögulegum aðgerðum Fjármálaeftirlitsins vegna brots á henni. Óski yfirtökuskyldur aðili eftir því þarf hann að sækja formlega um undanþágu til Fjármálaeftirlitsins."