Yfirtökutilboð Existu [ EXISTA ] til hluthafa Skipta er sanngjarnt, að því er fram kemur í óháðu áliti sem MP Fjárfestingarbanki (MPB) gerði að beiðni stjórnar Skipta.

Í áliti MPB segir m.a.:

„MPB hefur fengið fullt aðgengi að upplýsingum um Skipti, bæði þeim sem opinberar geta talist sem og áætlunum og upplýsingum frá stjórnendum Skipta. Því byggir álitið einnig á upplýsingum sem ekki eru aðgengilegar fjárfestum auk viðtala við stjórnendur Skipta.

MPB hefur yfirfarið 3ja ára áætlun Skipta sem og fjárhagslegar niðurstöður fyrir fyrsta ársfjórðung 2008. MPB framkvæmdi sjóðstreymismat á Skiptum auk þess að skoða sambærileg skráð fyrirtæki. Að gefnum þeim forsendum sem að framan greinir, er það mat MPB að yfirtökutilboð Exista þann 27. mars 2008 hafi verið sanngjarnt."

Í yfirtökutilboðinu er gert ráð fyrir því að fyrir hvern hlut í skiptum fáist 0,6574 hlutir í Existu. Segir í matinu að MPB geri ekki athugasemdir við að hluthöfum sé greitt í hlutabréfum í Existu, þar sem félagið sé í hópi veltuhæstu félaga í íslensku kauphöllinni og seljanleiki bréfa þess mikill. „MPB vekur hins vegar athygli á því að þar sem um greiðslu er að ræða í hlutabréfum Exista munu breytingar á verði hlutabréfa Exista hafa bein áhrif á endanlegt verðmæti Skipta,“ segir í álitinu.

„Samkvæmt yfirtökutilboðinu hefur Exista engar áætlanir um að gera verulegar breytingar á starfsemi og starfsstöðvum Skipta, þ.m.t. störfum og starfsskilyrðum stjórnenda og starfsmanna Skipta. Stjórnendur Skipta hafa jafnframt staðfest að breyting á eignarhaldi Skipta og brotthvarf úr viðskiptum á OMX ICE muni ekki hafa veruleg áhrif á rekstur félagsins.

Það er álit MPB að yfirtökutilboðið muni ekki hafa veruleg áhrif á starfsemi Skipta, starfsaðstöðu, stjórn eða starfsmenn,“ segir í áliti MPB.