Baugur hefur ekki tekið ákvörðun um hvort félagið heldur áfram að auka við eignarhlut sinn í bresku verslunarkeðjunni Woolworths, sagði Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga Baugs í Bretlandi, í samtali við Viðskiptablaðið.

Baugur jók hlut sinn í félaginu, sem er skráð í kauphöllina í London, í 10,02% í síðustu viku úr rúmlega 8%. Gunnar sagði að Baugur mun ekki gera tilraun til að taka yfir Woolworths að svo stöddu. Hann sagði Woolworths hins vegar áhugavert félag og að Baugur myndi skoða alla möguleika í stöðunni.

Vangaveltur eru á breskum fjármálamarkaði hvort að Baugur ætli sér að yfirtaka og afskrá Woolworths og benda sérfræðingar á að kaup Baugs hafi haldið uppi gengi bréfa félagsins. Gengi bréfa Woolworths var sígandi áður en kom í ljós að Baugur hefði keypt í félaginu. Einnig kom skrið á gengi bréfanna þegar greint var frá því að Kaupþing banki hefði keypt 2,5% hlut í félaginu fyrir hönd íslenskra fjárfesta. Ekki hefur komið í ljós hverjir fjárfestarnir eru, en ekki er talið að þeir tengist Baugi. Einnig benda breskir fjármálasérfræðingar á að Baugur hafi hagnast verulega af stöðutökum í skráðum félögum og að það geti verið að fyrirtækið reikni með að þriðji aðili taki yfir Woolworths og þannig geti félagið leyst út töluverðan gengishagnað.

Tekjur Woolworths hafa dregist saman og búist er við að hagnaður félagins verði á bilinu 40-60 milljónir punda (5-7,5 milljarðar íslenskra króna) árið 2005, samanborið við 73 milljónir punda árið 2004.

Baugur á 13,7% hlut í bresku tískuvöruverslunarkeðjunni French Connection (FCUK). Fyrirtækið hefur einnig verið orðað við hugsanlega yfirtöku á FCUK. Gunnar sagði það sama gilda um eignarhlut Baugs í félaginu -- að allir möguleikar yrðu skoðaðir en að ekki væri búið að taka formlega ákvörðun um að hefja yfirtökuviðræður. Hann sagði Baug ætla sér að bíða og sjá hvernig málin þróast.