Greiðslufall er yfirvofandi í Úkraínu þar sem ekki er útlit fyrir að landinu takist að greiða af skuldabréfi sem er á gjalddaga núna á miðvikudag. Eigendur skuldatrygginga á þessu tiltekna skuldabréfi eru þó ekki alltof áhyggjufullir þar sem útlit er fyrir að þeir muni fá kröfur sínar greiddar að fullu. Skuldabréfin skiptu um hendur á 78,63 dollara fyrir hverja 100 dollara að nafnvirði í viðskiptum í gær. Þetta kemur fram í morgunpósti IFS Greiningu .

Líklegt er að Úkraína hafni í lánshæfisflokki D, sem er lægsti lánshæfisflokkurinn ef þeir ná ekki að greiða af skuldabréfinu. Eina leiðin upp á við fyrir Úkraínu er að klára samkomulag við kröfuhafa um 20% niðurfærslu skulda landsins, sem er í farvatninu.