Ferðmálayfirvöld á Filippseyjum hvetja ferðamenn til að sækja landið heim. Þetta kemur fram á The Guardian í dag.

Ferðamannastraumur mun hafa bein áhrif á uppbyggingu í landinu og styrkja atvinnulífið en ekki veitir af eftir að fellibylurinn Haiyan reið yfir landið snemma í nóvember. Fellibylurinn, sem er sá stærsti í sögunni, var í heimsfréttunum í marga daga. Manntjón var mikið en yfir 5500 manns fórust í hamförunum.

Ferðamálayfirvöld benda á að landið sé ekki allt í rúst eftir fellibylinn því aðeins lítill hluti eða 3% landsins hafi orðið fyrir eyðileggingu. Auglýsingaherferð á vegum yfirvalda er hafin þar sem sýndar eru myndir af ferðamannastöðum og hótelum sem standa heil í von um að laða ferðamenn til landsins.

Á Filippseyjum starfa 2,9 milljón manns í ferðamannaiðnaði eða um 8% af heildarvinnuafli í landinu.