*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Innlent 5. október 2019 18:01

Yfirvöld of sein að aðlaga tollalög

Margt hefur breyst í tollamálum á hálfrar aldar starfsævi Reynis Haraldssonar í málaflokknum.

Júlíus Þór Halldórsson
Reynir Haraldsson hefur starfað við tollamál í yfir hálfa öld, og hefur verið beggja vegna borðsins; bæði hjá Tollstjóra og í einkageiranum.
Gígja Einarsdóttir

Reynir Haraldsson hóf störf hjá Tollstjóra 1969, og hefur starfað við tollamál allar götur síðan, sem gerir hálfa öld nú í ár. Ástæðuna fyrir því að hann tók þá afdrifaríku ákvörðun á sínum tíma segir hann einfalda. „Þá var nú ekki mikil atvinnustarfsemi. Það var sagt að það væri auðvelt að komast í lögguna eða tollinn, eða fara til Ástralíu,“ segir hann og hlær.

Rúman helming starfsævinnar, eða til 1998, starfaði Reynir hjá Tollstjóra, en þá færði hann sig yfir í einkageirann til Jónar Transport, þar sem hann hefur síðan starfað við tollafgreiðslu og tollamál almennt.

Þvældist úti á rúmsjó
Ýmislegt hefur drifið á daga Reynis á ferlinum. Það sem er honum einna minnisstæðast er þegar hann var í Tollgæslunni að „þvælast eitthvað úti á rúmsjó“ eins og hann orðar það, að tollafgreiða olíuskip og erlenda togara, sem þá voru í tugatali hér við veiðar.

Reynir kom einnig að því að aðflutningsskýrslur væri hægt að leggja inn á netinu, sem var alger bylting í tollafgreiðslu á sínum tíma. „Framan af, alveg framundir 1995-6 voru ábyggilega 100 manns sem unnu að því að yfirfara sendingar hjá embætti Tollstjóra.“

Reynir segir að með þessari breytingu hafi vinna þessa 100 manns að mestu leyti sparast, og afgreiðsluferlið styst úr 2-3 dögum í um það bil korter þegar öll gögn eru í lagi.

Sá kosti EES að lokum
Reynir var efins þegar ákvörðunin var tekin, fyrir rétt rúmum aldarfjórðung, um inngöngu Íslands í Evrópska efnahagssvæðið. Eftir inngönguna fór Reynir þó hægt og rólega að átta sig á þeim kostum sem hún hafði í för með sér. „Fyrst hugsaði maður bara eins og flestir, að okkur væri best borgið einum og annað þvíumlíkt. Svo bara með þróuninni í heimsmálunum og almennum viðskiptum hefur maður séð það að þetta hefur verið okkur mjög til bóta.“

Að lokum segir Reynir – spurður um mikilvægasta lærdóm þeirrar hálfrar aldar reynslu sem hann hefur undir beltinu – yfirvöld vera of sein að aðlaga lög og verklagsreglur að breyttum tímum. „Tollalög eru síðan 1988. Þetta er orðið svo þungt í vöfum að ungt fólk sem vinnur við tollmiðlun bara nennir ekki að lesa þau.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: tollar Reynir Haraldsson