Þýsk stjórnvöld ætla að láta undan þrýstingi frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og breyta lagafrumvarpi um fjárfestingar erlendra aðila svo það eigi einungis við um fjárfesta sem aðsetur eiga utan sambandsins. AFP fréttastofan greindi frá þessu.

Frumvarpinu er ætlað að veita stjórnvöldum heimild til að banna erlendum fjárfestum að eiga meira en sem nemur 25% í þýskum fyrirtækjum sem starfa á 'mikilvægum sviðum'. Fjárfestar með aðsetur í aðildarríkjum Evrópusambandsins verða hins vegar undanþegnir og gera má ráð fyrir að það sama muni eiga við um aðildarríki EES sem standa utan sambandsins.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafði lýst áhyggjum af því að frumvarpið myndi brjóta í bága við frjálst flæði fjármargn innan sambandsins, en því er einkum beint að eignarhlutasjóðum í eigu ríkja eins og Rússlands, Kína og olíuframleiðsluríkja við Persaflóa.

Ýmis aðildarríki Evrópusambandsins hafa látið í ljós áhyggjur af því að fyrirtæki sem starfa á mikilvægum sviðum eins og í orkugeiranum, fjarskiptum og varnarmálum muni stjórnast af erlendum hagsmunum.