Þýskar fjármálastofnanir lánuðu íslenskum bönkum og fjárfestingafélögum meira fé en nokkrar aðrar á uppgangsárum íslensks viðskiptalífs. Samkvæmt tölum frá Alþjóðagreiðslubankanum (BIS) náum skuldir íslenskra banka og fyrirtækja við þýska banka samtals 2.740 milljörðum króna um mitt ár 2008. Sú upphæð er um þriðjungur af öllum erlendum skuldum íslensku aðilanna á þeim tíma. Samkvæmt nýjustu tölum BIS um erlenda skuldastöðu íslenskra banka og fyrirtækja hafa skuldir þeirra við þýskar fjármálastofnanir dregist saman um 60% og eru nú um 1.100 milljarðar króna.

Fékk féstuðning eftir íslenska hrunið

Bayerische Landesbank var fyrsti þýski bankinn til að óska eftir stuðningi frá þýska ríkinu eftir að alþjóðlega fjármálakreppan lagðist á. Það gerði bankinn 22. október 2008. Samkvæmt þýskum fjölmiðlum á þeim tím var helsta skýringin sú að bankinn væri að undirbúa sig undir yfirvofandi skell vegna lána hans til íslenskra fjármálastofnanna. Erwin Huber, þáverandi fjármálaráðherra Bæjaralands og stjórnarformaður Bayerische Landesbank, sagði af sér báðum embættum í kjölfarið.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .