Ef það kviknar hjá þér áhugi að læra prjóna myndir þú aldrei byrja á því að lesa 1000 ára sögu hannyrða á Íslandi. Þú myndir byrja að prjóna flík sem höfðar til þín og vinna þig til baka eftir því sem áhuginn þroskast.

Ef þú færð áhuga á ljósmyndun myndir þú aldrei byrja á því að læra litafræði og lýsingu. Þú myndir byrja á því að taka myndir af því sem heillar þig og bæta við þig tækniatriðum smám saman. Ef þú vilt verða afbragðs kokkur myndir þú aldrei byrja á því að læra örveru- og næringarfræði. Þú myndir byrja að elda mat sem þér finnst góður og kynna þér hitt samhliða eins og færnin vex.

Nærri öll kunnátta sem við viljum tileinka okkur byrjar sem eitthvert mjög sérhæft hlutmengi þess sem við höfum áhuga á og þaðan vinnum við okkur svo til baka í stóru myndina. Skólakerfið vill hins vegar meina að þetta sé öfugt. Til þess að geta búið til gott pasta þurfir þú fyrst að skilja örverufræði. Eða til að geta tekið góða mynd þurfir þú fyrst að skilja bylgjulengd lita og kenningar Newton.

Þetta er áskorun fyrir margar námsleiðir skólakerfisins eins og við þekkjum það í dag. Stafræn markaðstorg með námsefni eins og Coursera, Skillshare og Gumroad eru staðir sem æ algengara er að fólk sæki sér þekkingar á kostnað gamalla hliðvarða menntunar. Þar sem markaðurinn stjórnar kjörum kennara, hvað sé kennt og hvernig.

En ekki síður þar sem nemendur geta hámað í sig námsefni en þurfi ekki að slökkva og kveikja á áhuganum eftir því sem einhver bjalla glymur. Þar sem áherslan er á að sækja sér hæfni frekar en gráðu. Nám framtíðarinnar verður á forsendum nemandans en ekki kerfisins.

Höfundur er samskiptasérfræðingur.