*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Örn Arnarson
13. september 2019 15:38

Að gjalda keisaranum á tímum GDPR

Ljóst er að ef þetta frumvarp verður óbreytt að lögum muni það setja fjármálafyrirtæki í afar erfiða stöðu.

epa

Í samráðsgátt stjórnvalda hefur verið til umsagnar frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra til laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Það sem vekur sérstaka athygli við frumvarpið er að í 19. grein þess er innheimtumanni ríkissjóðs veitt afar víðtæk heimild til upplýsingaöflunar um eignir á borð við innlán, verðbréfaeign sem og um skuldastöðu frá bönkum, sparisjóðum og öðrum fjármálafyrirtækjum.

Eins og segir í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka fjármálafyrirtækja og Samtaka iðnaðarins um frumvarpið þá er einungis tekið fram að upplýsingar skuli afhenda á grundvelli beiðni innheimtumanns ríkissjóðs. Ekki er með skýrum hætti tekið fram hvers vegna svo víðtæk upplýsingaöflun sé nauðsynleg og hvaða tilgangi hún eigi yfirhöfuð að þjóna. Slíkar skýringar hljóta að teljast nauðsynlegar út frá lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að ríkisskattstjóri sjálfur muni útfæra verklagið við þessa upplýsingaöflun í stað þess að löggjafinn setji almenn skilyrði til þess að tryggja lögmæti miðlunar persónuupplýsinga.

Ljóst er að ef þetta frumvarp verður óbreytt að lögum muni það setja fjármálafyrirtæki í afar erfiða stöðu gagnvart viðskiptavinum sínum út frá sjónarmiðum persónuverndar. Í raun er mesta furða að fjármála- og efnahagsráðherra sé reiðubúinn að heimila svo víðtækar heimildir til skattayfirvalda til þess að fiska eftir svo ítarlegum upplýsingum án þess að gerðar séu stífar kröfur um ástæður og rökstuðning fyrir upplýsingaöfluninni.

Það skal engan undra að Persónuvernd boðar í stuttri umsögn um frumvarpið alvarlegar athugasemdir við þennan þátt málsins. Samráðsgátt stjórnvalda hefur bætt verklag við gerð lagafrumvarpa og vonandi verður það raunin þegar kemur að meðferð þessa lagafrumvarps.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.