*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Kristinn Freyr Haraldsso
17. mars 2019 11:11

Af hverju eru forstjóralaun svona há?

Störf forstjóra í stórum fyrirtækjum eru mjög krefjandi og ekki á færi allra að sinna þeim svo vel sé.

Aðsend mynd

Störf forstjóra í stórum fyrirtækjum eru mjög krefjandi og ekki á færi allra að sinna þeim svo vel sé. Forstjóralaun eru í deiglunni um þessar mundir og þá gjarnan sett í samhengi við þær viðræður sem núna eru í gangi um gerð nýrra kjarasamninga. Við ákvörðun forstjóralauna og annarra kjara má segja að það séu þrjú sjónarmið eða kraftar sem skýri að stórum hluta hvernig forstjóralaun eru ákveðin. Í fyrsta lagi er það hámörkun á hagsmunum hluthafa, í öðru lagi er það hámörkun á eigin hagsmunum og í þriðja lagi eru það ytri viðmið sem birtast í lögum og reglum sem og viðhöfðum venjum og starfsháttum á atvinnumarkaði.

Til að tryggja hagsmuni hluthafa er megin útgangspunktur þess sjónarmiðs að bjóða upp á samkeppnishæf laun og starfskjör á atvinnumarkaði fyrir forstjóra þar sem þörf fyrirtækja er að fá og halda í hæfa einstaklinga sem geta valdið þessum krefjandi störfum. Þeir sem veljast í forstjórastarf vita að það er áberandi og frammistaða fyrirtækisins sem þeir veita forstöðu er undir mörgun þáttum komin, bæði innri og ytri, þannig að markaðsaðstæður og tímasetningar skipta máli. Það þýðir að fólk sem er valið til þeirra starfa reynir að hámarka samningsstöðu sína sem best til að vega upp á móti þáttum eins og litlu starfsöryggi og mikilli orðsporsáhættu. Báðir aðilar koma svo á starfssamningi sem mótast af lögum um skattskil og reikningshald og með hliðsjón af upplýsingagjöf og leiðbeiningum um stjórnarhætti (fyrir skráð hlutafélög). Í helstu samningsliðum slíkra starfssamninga, kemur fram launagerð, launasamsetning, efnahagsleg verðmæti slíkra launa og önnur starfskjör.

Við mat á stærð og umfangi forstjórastarfa er algengast að nota þætti eins og heildarveltu, markaðsvirði og/eða fjölda starfsfólks og starfsstöðva. Þessir þættir eru til marks um þá nálgun sem gerð er um starfskröfur, ábyrgð og flækjustig þeirra úrlausnarefna sem starfinu fylgir, þannig að hægt er að bera saman mismunandi forstjórastörf á milli fyrirtækja og atvinnugreina. Slíkur samanburður er algengur erlendis þar sem fyrir er gnægð af rekstrar- og launaupplýsingum úr erlendum kauphöllum þar sem löng og rík hefð er fyrir slíkri upplýsingagjöf og kröfur um aukið gagnsæi hafa aukist til muna á síðastliðnum árum. Öfugt við þetta er rekstrarumhverfið á Íslandi þar sem smæð markaðarins og stutt saga slíkra starfshefða og -venja um upplýsingagjöf í Kauphöll Íslands (Nasdaq Iceland) torveldar allan samanburð á starfssamningum forstjóra.

Mikilvægi góðra stjórnarhátta

Erlendar rannsóknir á tengslum stjórnarhátta fyrirtækja og forstjóralauna leitast við að sýna fram á orsakasamhengi milli veikra stjórnarhátta og sterkrar samningsstöðu forstjóra. Veikleiki slíkra athugana er að stjórnarhættirnir sjálfir eru afleiðing ákvarðana stjórnarmanna, stjórnenda, og hluthafa sem sjálfir eru undir áhrifum úr rekstrarumhverfi annarra fyrirtækja sem eru á markaði, sem gerir alla greiningu á orsakasamhengi óljósa. Hins vegar eru nokkur atriði í stjórnarháttum þar sem tekist hefur að sýna fram á orsakatengsl. Meðal þessara atriða eru að laun forstjóra hafa tilhneigingu til að hækka með auknum fjölda stjórnarmanna (öfug tengsl við persónulegar kröfur um eftirlitsskyldu) og með stjórnarsetu stjórnarmanna í fleiri en þremur stjórnum (minnkandi geta stjórnarmanna til að sinna eftirlitshlutverki sínu).

Atvinnumarkaður fyrir forstjóra

Áhersla erlendra rannsókna og stjórnunarkenninga beinist mest að eftirspurnarhliðinni, en mun minna er vitað um framboðshliðina, þ.e.a.s. nákvæmlega hvaða hæfnisþætti þarf góður forstjóri að hafa og hvernig er mögulegt að bæta þá sem svo kallar fram betri rekstrarárangur? Er hægt að þjálfa alla þá nauðsynlegu færnisþætti sem forstjórastarf krefst eða eru sumir meðfæddir? Til samanburðar getum við horft til annarra vel launaðra starfa eins og lækna og lögfræðinga þar sem vissir færnisþættir eru þekktir og þeim stýrt með vissri þjálfun og vottun, en slíkt er ekki að finna fyrir starf forstjóra. Sum fyrirtæki gera áætlun um staðgengla (succession planning) og beita vissum inngripum til að styðja við hana og þannig minnka rekstraráhættu. Þannig koma stjórnir fyrirtækja mikið við sögu þar sem þetta snertir með beinum hætti eftirlitshlutverk þeirra. Framboðsupplýsingar um atvinnumarkað fyrir forstjóra eru mjög takmarkaðar og skýra þannig að einhverju leyti það yfirverð sem laun forstjóra hafa. Sé þetta heimfært á íslenskan markað og sett í samhengi við áðurnefnd sjónarmið um hámörkun hagsmuna hluthafa og forstjóra má leiða líkum að því að góðir stjórnarættir geti skipt verulegu máli á íslenskum fyrirtækja- og atvinnumarkaði sökum smæðar. Þar á ég við starfshætti sem tengjast gagnsæi og upplýsingagjöf, hvernig ákvarðanir eru teknar og hver tekur þær. Það er nú sem aldrei fyrr að mikilvægi góðra stjórnarhátta sé sett í forgang meðal forystumanna og -kvenna í íslensku atvinnulífi þannig að skapa megi sátt og traust meðal allra haghafa og þátttakenda á atvinnumarkaði.

Höfundur vinnur sem ráðgjafi hjá Intellecta.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is