*

miðvikudagur, 23. september 2020
Andrés Magnússon
8. september 2019 13:43

Áhyggjuefni

Innihaldsrýr og óhollur skyndibiti er stundum kallaður ruslfæði.

Haraldur Guðjónsson

Hér var í liðinni viku minnst á nokkrar „fréttir“ DV, sem voru svo rangar, lausar við góð vinnubrögð í blaðamennsku eða beinlínis uppskáldaðar, að efast var um að DV mætti kalla fréttamiðil. Það stóð ekki á viðbrögðum frá kollegunum, sem tóku undir áhyggjur af því á hvaða leið DV væri að fara, lýstu bæði undrun og hneykslan. Því auðvitað varðar það blaðamenn sem stétt þegar slíkt rugl og rusl er gefið út undir yfirvarpi fréttamiðlunar. Það subbar þá út líka.

                                                                                                 * * *

Lengi vel mátti skipta helstu fréttamiðlum í tvo flokka, annars vegar skrásetningarmiðla (e. newspaper of record) og hins vegar æsifréttamiðla (e. sensational press). Þau hugtök miðast mikið við öld dagblaða, en svipaðan mun má vel sjá á efnistökum í síðari gerðum miðla, hvort heldur er útvarp, sjónvarp eða á neti.

Skrásetningarmiðlar reyna að greina frá öllu því, sem fréttnæmt getur talist og leggja mikið upp úr áreiðanleika, hafa jafnan mikla útbreiðslu, yfirleitt í áskrift, og eru oft notaðir til opinberra tilkynninga að auki. Æsifréttamiðlarnir leggja hins meira upp úr uppslætti einstakra frétta, dægurmálum og léttmeti, en reyna ekki að segja frá öllu markverðu og eiga meira undir lausasölu. Báðar gerðir miðla eiga erindi en ekki endilega við sama fólkið. Þar á milli eru svo auðvitað ýmsir miðlar sem reyna að fara bil beggja.

Hér á landi hafa helstu skrásetningar miðlarnir frá öndverðu verið Morgunblaðið og Ríkisútvarpið (RÚV). Fréttablaðið reyndi sig við það á tímabili með nokkrum árangri, en hefur í seinni tíð orðið líkara öðrum fríblöðum heimsins: lætur sér nægja að segja hið helsta án þess að flytja æsifregnir. Vísir, Dagblaðið og DV voru miklu nær æsifréttamiðlunum, eins og síðdegispressunni hæfði, en þó yfirleitt (en ekki alltaf ) með miklu hófstilltari hætti en gerist í nágrannalöndunum. Þegar Bylgjan og Stöð 2 fóru að flytja fréttir stilltu þeir sér báðir upp einhversstaðar mitt á milli, sögðu helstu almennar fréttir en með snarpari hætti en tíðkaðist hjá RÚV.

Þetta snýst ekki aðeins um fréttalegar áherslur, heldur einnig markaðs- og rekstrarlegar forsendur. Það er heilmikil og kostnaðarsöm útgerð að halda úti skrásetningarmiðlum, þar sem ávinningur lesenda felst í samfellunni og áreiðanleikanum, meðan æsifréttamiðlarnir eru meira í dagróðrunum, kosta minna til en gæftirnar mjög misjafnar.

Í seinni tíð hefur svo mátt greina fleiri gerðir fréttamiðla, einkum eftir að netið ruddi sér rúms. Þar má helst til tína málflutningsmiðla (e. advocacy journalism), sem leggja sérstaka áherslu á einstaka málaflokka (án þess að það þurfi að vera hreinn áróður) og dægurfréttamiðla, sem segja mikið fréttir af fólki, hneykslum og alls kyns samtíningi, þar sem ritstjórnarstefnan miðast við lítið annað en smellina. Oft á afar hæpnum forsendum.

Svo geta miðlarnir verið blendnir í þessu. Stundin er þannig málflutningsmiðill með æsifréttayfirbragði, án þess þó að efnið sé endilega æsifréttakyns, Viljinn nánast hreinn mál flutningsmiðill, Kjarninn nokkur málflutningsmiðill, en yfirbragðið svipað og hjá skrásetningarmiðli þó hann velji mikið hvaða fréttum er sinnt, enda hefur hann ekki burði til að vera eiginlegur skrásetningarmiðill umfram endalausar uppskriftir úr aðvífandi fréttatilkynningum.

Og hvað á að kalla DV, sem er skrýtin blanda dægurmiðils og æsifréttamiðils, en „fréttirnar“ tómar smellubeitur, meira og minna soðnar saman úr einhverju rausi á félagsmiðlum ef ekki uppskálduð þvæla? Innihaldsrýr og óhollur skyndibiti er stundum kallaður ruslfæði.

                                                                                                 * * *

Menn hafa látið í ljós margvíslegar áhyggjur af fjölmiðlaþróun undanfarna 1-2 áratugi. Upphaflega með tilkomu netmiðlanna, sem hafa grafið mjög undan rekstrarforsendum hinna hefðbundnu miðla, án þess þó að almennir netmiðlar hafi reynst neinum gullnáma til þessa.

Margir þeirra hafa vissulega metnað til þess að vera almennir og eiginlegir fjölmiðlar, en það er erfitt þegar tekjurnar eru rýrar. Mun algengara er að þeir endurómi eða endursegi fréttir annarra miðla og svo eru fréttatilkynningarnar gjöful upp fylling, stundum nánast uppistaðan. Áreiðanleiki slíkra miðla getur aldrei orðið nema miðlungi góður, þeir annast eigin fréttaöflun ekki nema í litlum mæli og byggja endursagnir frétta annarra miðla sjaldnast á eigin staðfestingu eða heimildum. Fréttirnar verða ekki réttari eða betri í slíkum endursögnum, ekki frekar en í góðum hvíslleik.

Er það þó hátíð hjá fyrrnefndum ruslmiðlum, sem hafa það helst sem betur hljómar og smelli vekur. Og efniviðurinn vitaskuld mjög misjafnlega fréttnæmur, fréttir af Facebook, frægðarfólki og fjasi. Flest af þessu er sjálfsagt sárasaklaus tímaeyðsla, en það má samt finna fjölda dæma um meiðandi lágkúru, jafnvel verra.

En þetta er ókeypis og yfirleitt auðvelt aflestrar og kitlar greinilega einhverjar taugar nógu margra til þess að einhverjum þykir ómaksins virði að standa í þessu.

Það kann hins vegar að vera áhyggjuefni í frjálslyndu lýðræðisþjóðfélagi ef það verður rík stéttaskipting í fjölmiðlaneyslu og almennri upplýsingu. Áfram verður rúm fyrir áreiðanlega fréttamiðla sem flytja raunverulegar fréttir, fréttir sem höfða til fólks sem getur og vill greiða fyrir það að vera vel upplýst um atburði og málefni líðandi stundar. En hvað um alla hina sem láta sér nægja ókeypis afþreyingu gervifrétta?

Þá er líka rétt að hafa í huga að á örmarkaði eins og Íslandi er rýmið fyrir vandaða og áreiðanlega fréttamiðla minna, því þeir þurfa ákveðinn stofn fréttaneytenda til þess að geta staðið undir nafni. Þar hlýtur minnkandi lestur dagblaða og æ þrengri hópur fréttaneytenda á ljósvaka að valda áhyggjum.

Fréttir af taprekstri stóru blaðanna segir sína sögu, en móðurfélag Fréttablaðsins tapaði liðlega milljarði króna á liðnu ári (um helmingur ein skiptis kostnaður að sagt er) og útgáfa Morgun­blaðsins rúmum 400 milljónum. Stjórnmálamenn segjast hafa áhyggjur af rekstrar um hverfi frjálsra fjölmiðla, en allar þeirra aðgerðir miðast við að verja og þenja út stefnulausa ríkismiðla en friðþægja hina með því að rétta þeim sporslur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.