Umtalaðasta frétt vikunnar var um myndband af lögreglumanni sem gekk harkalega fram gagnvart ofurölvaðri konu á Laugaveginum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sá ástæðu til að gefa frá sér tilkynningu á Facebook um málið, sem sent hefur verið til rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra. Lögreglumaðurinn sem skellti bílhurð á konuna og dró hana síðan nokkra metra eftir jörðinni, með viðkomu á bekk, var sendur í leyfi.

Það hefur ekki gerst oft áður, ef einhvern tímann, að myndbandsupptaka á farsíma spili svo stórt hlutverk í fréttamáli hérlendis. Án upptökunnar væri málið eflaust minni háttar, ekki væri grundvöllur fyrir rannsókn og málið væri vafalítið ekki til umræðu í fjölmiðlum.

Myndbandið flaug á ógnarhraða um íslensku netmiðlana. Hinir „virku í athugasemdum“ réðu vart við sig, frekar en fyrri daginn, og drituðu hálfmótaðar skoðanir sínar niður á lyklaborðið. Þeir sem héldu að óhróður og skítkast myndi minnka við að láta „þá virku“ skrifa athugasemdir undir eigin nafni höfðu rangt fyrir sér.

Það er ekkert nýtt að íslenskirfjölmiðlar lengi í fréttatengdri keðju með því að vísa í ummæli sem einhver Facebook-notandi skrifar við ákveðna frétt. Frétt birtist um málið, einhver skrifar athugasemd við hana og skömmu síðar er athugasemdin orðin að sjálfstæðri frétt. Í nær öllum tilvikum eru þessar fréttir ómerkilegar, tengjast kjarna málsins sjaldnast, en laða marga lesendur að vegna vinsælda upphaflegu fréttarinnar.

DV.is sá ástæðu til þess að segja sérstaklega frá athugasemd skemmtikraftsins Magga Mix, sem fordæmdi handtökuna. Fréttin um athugasemd Magga Mix var glórulaus. Samkvæmt sama fréttamati hefði verið hægt að gera aðra frétt um athugasemd við fréttina um athugasemd Magga. Ein kveðjan sem Maggi fékk var mjög í ætt við margar athugasemdir: „Haltu kjafti Maggi“. Smekklegt.

Ef, og það er stórt ef, hinar og þessar athugasemdir við fréttir eru fréttaefni þá er holan orðin hyldýpi. Vefsíðan um fréttir á Facebook er hrein skelfing. Það hefur þegar veriðsannreynt.