Fréttin um að sveitarfélagið Árborg hafi þurft að leita á náðir Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga hefur ekki vakið mikla athygli.

Í fundargerð frá 1. febrúar segir:


„Í ljósi fjárhagsstöðu þá er lagt til að Sveitarfélagið Árborg geri samkomulag við innviðaráðherra um fjárhagslegar aðgerðir og eftirlit á grundvelli 83. gr. laga nr. 138/2011.“

Mánuði síðar var svo samkomulag við innviðaráðherra samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Í ljósi þess að sveitarfélagið er með tvo skuldabréfaflokka skráða í Kauphöllinni sætir nokkurri furðu að engar formlegar tilkynningar hafi borist um fjárhagsvandræði sveitarfélagsins. Ekki dregur það úr alvarleika málsins að viðskipti áttu sér stað með skuldabréfin eftir viðræður milli sveitarfélagsins og ráðuneytisins um fjármál þess.

En þetta mál leiðir hugann að stöðu fjármála sveitarfélaga. Í vikunni bárust fregnir af því að Mosfellsbær hefði verið rekinn með 900 milljóna króna tapi í fyrra. Á næstunni mun uppgjör Reykjavíkurborgar liggja fyrir. Öllum má vera ljóst að niðurstaðan verður íbúum borgarinnar þungbær enda hefur lengi legið ljóst fyrir að óstjórn hefur verið á fjármálum borgarinnar.

Warren Buffett benti eitt sinn á að það væri ekki fyrr en í útfalli öldunnar að í ljós kæmi hverjir hafa verið að synda berrassaðir. Að sama skapi er verðbólgan að leiða í ljós hvaða sveitarfélög hafa verið rekin með ósjálfbærum hætti undanfarin ár. Hætt er við því að mörg þeirra lendi í vanda þegar allt er yfirstaðið.

Þetta ástand ætti að vera áminning um hversu mikill skaðvaldur verðbólgan er og hversu mikið forgangsmál er að kveða hana niður. Sú barátta er rétt hafin og fátt bendir til þess að hún verði skammvinn. Ljóst má vera af fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að hún ætlar lítið að gera til þess að draga úr þenslu og útgjöldum. Eins og staðan er í dag þá er hallarekstur ríkisins ríflega 4% af landsframleiðslu á sama tíma og hagvöxtur mælist um sex prósent. Þetta er til þess fallið að festa verðbólgu og hátt vaxtastig í sessi með tilheyrandi afleiðingum fyrir efnahagslífið.
Fjármálaáætlunin afhjúpar fullkomið skilningsleysi á þeim vanda sem er við að etja.

Þannig má nefna að á tveimur árum frá útgáfu fjármálaáætlunar árið 2021 til útgáfu fjármálaáætlunar árið 2023, hafa væntingar ríkissjóðs um heildarútgjöld á árinu 2025 aukist um 24 prósent. Þetta ábyrgðarleysi þýðir einfaldlega að Seðlabankinn neyðist til þess að hækka vexti enn frekar en ef ríkisfjármálunum væri stjórnað með ábyrgum hætti.

Á vef Seðlabankans birtist ágæt grein eftir Kristófer Guðlaugsson hagfræðing í vikunni. Þar kemur meðal annars fram að verðbólguvæntingar hér á landi hafa hækkað meira að undanförnu en í nágrannalöndunum. Þetta bendir til þess að verðbólgan sé að festa sig í sessi og þar af leiðandi þarf Seðlabankinn að beita öllum ráðum til þess að svo verði ekki.


Kristófer segir:
„Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ítrekað lýst því yfir að hún muni halda áfram að grípa til þeirra aðgerða sem þarf til þess að verðbólga hjaðni í 2½% verðbólgumarkmið bankans innan ásættanlegs tíma. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir alla landsmenn. Þótt hækkun vaxta auki kostnað margra heimila og fyrirtækja til skamms tíma litið þá yrði kostnaðurinn miklu meiri til lengri tíma ef ekki er brugðist við og verðbólgunni leyft að festa rætur. Verðbólgan er hinn raunverulegi skaðvaldur lífskjara, einkum fyrir lágtekjuhópa. Mikilvægt er að allir aðilar sem hafa mikil áhrif á umsvif í þjóðarbúinu leggist á eitt og beiti sér þannig að verðbólga hjaðni sem fyrst niður í verðbólgumarkmið Seðlabankans. Á það bæði við um ríki og sveitarfélög ásamt atvinnurekendum og launafólki. Stöðug og lítil verðbólga stuðlar að almennri efnahagslegri velferð og skilar sér í bættum lífskjörum fyrir alla.“

Óhætt er að taka undir hvert orð.