*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Páll Jóhannesson
14. apríl 2017 17:00

Bráðabirgðalausnir

Páll Jóhannesson skrifar um skattskyldu vegna niðurfellingar skulda einstaklinga og fyrirtækja.

Haraldur Guðjónsson

Hér á landi höfum við vanist því að lifa hátt og njóta þess þegar vel gengur en á sama tíma vera búin undir það versta. Þegar allt er farið á versta veg hefur svo tíðkast að reyna að bæta úr vandanum með viðeigandi lagabreytingum, oftar en ekki til bráðabirgða. Í kjölfar hrunsins 2008 fóru af stað gríðarlegar skuldaleiðréttingar enda ljóst að mjög margir aðilar, einstaklingar og fyrritæki gátu ekki staðið í skilum. Í því sambandi kom upp umræða um að niðurfelling skulda hjá fyrirtækjum og einstaklingum væri í raun tekjuskattsskyld en á umræddum tíma virtust fáir hafa velt þessu fyrir sér og skattframkvæmdin hafði verið mjög tilviljanakennd hvað þetta varðaði. Við þessu var brugðist með umtalsverðum fjölda bráðabirgðaákvæða sem bætt var við tekjuskattslögin. Eðli máls samkvæmt tóku ákvæði þessi aðeins til tiltekins tíma og fólu í sér að veittar voru nokkurs konar undantekningar frá þeirri meginreglu að þegar skuld skattgreiðenda er felld niður af kröfuhafa þá teljist skuldaeftirgjöfin til skattskyldra tekna skuldarans. Af einhverjum ástæðum sá löggjafinn hins vegar ekki ástæðu til að hafa samúð með sams konar aðstæðum allra skattgreiðenda til frambúðar.

Nú hefur verið leyst úr þessum stóra skuldavanda og bráðabirgðaákvæðin flest fallin úr gildi. Eftir stendur endanleg regla í tekjuskattslögum um að einstaklingar séu lausir undan skattkvöðinni ef þeir gefast alveg upp og fara í formlegt nauðasamningsferli, greiðsluaðlögun eða sannað er eftir árangurslaust fjárnám og ítrekaðar innheimtutilraunir að þeir eiga ekki fyrir skuldinni. Velta má því upp hvort létta mætti raunir einstaklinga,sem augljóslega eiga ekki fyrir skuldum, undir þessum kringumstæðum sérstaklega þegar vilji er fyrir hendi hjá kröfuhöfum til þess að leysa málin með niðurfellingu skulda. Með sama hætti má velta því upp hvers vegna ekki sé tekið mið af greiðslugetu fyrirtækja með svipuðum hætti.

Ný fyrirtæki sem þurfa áhættufjármagn standa reglulega frammi fyrir því að þurfa að semja við kröfuhafa annað hvort um niðurfellingu skulda eða um að umbreyta skuldum í hlutafé. Í báðum tilfellum stendur slíkt fyrirtæki frammi fyrir því að þurfa að standa straum af tekjuskatti. Við umbreytingu skulda í hlutafé er litið svo á að skuld sé gefin eftir (a.m.k. að hluta) ef verðmæti hlutabréfanna er lægra en bókfært verð skuldarinnar, þ.e.a.s. skattskylda eftirgjöfin nemur þá mismun á verðmæti hlutabréfanna og bókfærðu verði skuldarinnar. Það gefur hins vegar auga leið að viðkomandi fyrirtæki á ekki fjármuni til að standa straum á greiðslu tekjuskatts undir þessum kringumstæðum.

Á síðasta ári var sett regla sem kveður á um að einstaklingar sem fjárfesti í breytanlegum skuldabréfum geti frestað hagnaði sem myndast við umbreytingu slíkra skuldabréfa í hlutafé þar til hlutabréfin eru seld. Var reglunni ætlað að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og er það vel. Hin hliðin er hins vegar að staða áhættusamra nýsköpunarfyrirtækja er oft þannig að skuldabréfum er breytt í hlutafé þegar endurfjármagna þarf reksturinn vegna erfiðleika þar sem félagið þarf lengri tíma til uppbyggingar og lendir í fjárþröng. Undir þeim kringumstæðum er slíkum fyrirtækjum í raun gert ómögulegt að umbreyta skuldum sínum í hlutafé vegna þeirrar skattkvaðar sem þá vaknar og kemur til greiðslu.

Ekki þarf hins vegar að leysa þetta með sértækri reglu um nýsköpunarfyrirtæki, né þá heldur bráðabirgðaákvæði. Velta má því upp hvað telst almennt eðlileg og sanngjörn regla undir þessum kringumstæðum. Erlendis þekkist t.d. að tekið sé mið af því við skattlagningu á niðurfelldum kröfum hvert virði kröfunnar í höndum kröfuhafa er og við mat á því hvert sé virði kröfunnar er litið til þess hver greiðslugeta skuldarans er. Svipað og á við um einstaklinga hér á landi þó að mögulega sé árangurslaust fjárnám og ítrekaðar innheimtutilraunir nokkuð íþyngjandi. Önnur leið væri jafnframt að líta á framlagið sem felst í umbreytingunni sem aukið hlutafé án þess að skattskyld viðskipti eigi sér stað.

Ef þess er hins vegar krafist að skuldari greiði meira en sem nemur greiðslugetu hans þá fer skuldarinn almennt í þrot og það getur varla talist heilbrigt eða sjálfbært þegar um skattlagningu er að ræða.

Stikkorð: Lögfræði Skattar
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.