Ég man þegar ég mætti í minn fyrsta Boot Camp tíma fyrir nokkrum árum. Ég var mættur til að sigra heiminn og taldi mig langt á veg kominn við það eitt að hafa vaknað rétt fyrir klukkan sex til þess að gera eitthvað sem ég hafði ekki gert í mörg ár, hreyfa mig. Tíminn byrjaði á léttu skokki og þarna fór ég af stað. Ég datt inn í Rocky og sá sjálfan mig fyrir mér hlaupa upp fjöll, lyfta trédrumbum, kýla í kjötskrokka og taka spretti á ströndinni. Nú gæti ég allt og heimurinn mátti vara sig.

Þessi unaðstilfinning varði þó ekki í nema um 15 sekúndur, eða allt þangað til að það kom að því að hlaupa upp Hallarmúlann (sem ber nafn með rentu). Frá því að vera Rocky um 200 metrum áður langaði mig frekar láta Ivan Drago lemja mig heldur en að halda þessu áfram. Hlunkurinn ég gat nánast ekki neitt og mig langaði helst til að grenja.

Ég ákvað þó að gefast ekki upp. Það var ein af mínum bestu ákvörðunum. Ég áttaði mig á því að þetta yrði langhlaup, að þolinmæðin væri dyggð og allt það. Einn daginn kæmist ég í þröngu skyrtuna sem ég átti inni í skáp og einn daginn gæti ég labbað upp á Esjuna án þess að æla.

Allt gekk það eftir og í dag get ég gert fjölmargt sem ég hafði ekki getað áður, hvort sem það er að hlaupa, hjóla landshorna á milli, lyfta þungum lóðum, ganga á fjöll eða gera aðrar æfingar. Ég kemst líka í þröngu skyrtuna og ég verð ekki móður af því að labba upp stiga.

Þetta hljómar auðvitað eins og sjálfhverft mont. En að heyra sambærilegar sögur var mér þó hvatning og er enn. Ef ég gat þetta þá getur þú það. Það getur verið sársaukafullt að byrja, bæði andlega og líkamlega, og stundum enn verra að halda áfram – en sá sársauki er tímabundinn og jafnast ekkert á við hamingjuna sem fylgir því að sigra sjálfan sig. Sú hamingja gæti jafnvel sigrað heiminn.