Morðið á George Floyd varð kveikjan að miklum mótmælum í Bandaríkjunum og víðar. Breiðfylking almennra borgara hafnar lögregluofbeldi, kynþáttamismunun og því kerfislæga misrétti sem svartir þegnar Bandaríkjanna hafa búið við og eru beittir enn í dag. Kerfisbundið misrétti á sér ótal birtingarmyndir. Lítill angi kerfisbundinnar kúgunar sést glöggt þegar litið er til nýsköpunar og hugverkaverndar.

Á tíunda áratugnum setti hagfræðingurinn Paul Romer fram kenningar sínar um hvernig má knýja nýsköpun og sjálfbæran hagvöxt með því að styrkja vísindakennslu, heilbrigða samkeppni og innleiða öfluga einkaleyfislöggjöf. Fyrir þær kenningar hlaut hann Nóbelsverðlaun árið 2018.

Þáverandi nemandi Romer , Lisa D. Cook , var vantrúuð á að þessar forsendur dygðu einar og sér til þess að nýsköpun geti blómstrað. Til þess þurfi uppfinningamenn einnig að búa við öryggi og jafnrétti. Með því að bera saman fjölda einkaleyfisumsókna svartra og hvítra vísindamanna á 70 ára tímabili í kringum aldamótin 1900 sýndi hún skýrt fram á að á þeim tímabilum þegar ofbeldi og misrétti gegn svörtum í Bandaríkjunum jókst dró hlutfallslega úr einkaleyfisumsóknum þeirra en þeim fjölgaði svo aftur þegar ástandið skánaði. Ef svartir gætu ekki treyst á að njóta jafns réttar til öryggis og daglegs lífs hví í ósköpunum ættu þeir að treysta á að dómskerfið myndi verja uppfinningar og einkaleyfi þeirra? Samkvæmt útreikningum hennar varð bandarískt hagkerfi af meira en 1.100 einkaleyfum frá svörtum uppfinningamönnum á því tímabili sem var rannsakað og tapaði þar með þeim verðmætum sem þau hefðu skapað.

Mannréttindi skulu gilda um alla, alltaf og án undantekninga. Efnahagslegt misrétti er þar meðtalið. Rannsóknir Lisu D. Cook sýna skýrt fram á að slíkt misrétti kemur ekki einungis niður á einstaklingnum sem verður fyrir því heldur á samfélaginu öllu.