Það voru ekki lítil tíðindi sem Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, boðaði landsmönnum í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins á sunnudag fyrir rúmri viku. Þar sagði hann að landsmenn allir ættu að undirbúa sig undir að lenda annaðhvort í sóttkví eða einangrun á næstu vikum.

Það segir kannski meira en mörg orð að þessu ótrúlegu ummæli vöktu ekkert sérstaklega mikla athygli. Það er að segja að fullyrðing eins fulltrúa almannavarnayfirvalda um að allir Íslendingar mættu eiga von á því að lenda í stofufangelsi vegna sóttvarnaaðgerða á næstu vikum varð ekki til þess að fjölmiðlar leituðu álits stjórnmálamanna á því hvort þetta kallaði á endurhugsun baráttunnar gegn faraldrinum. Ef fyrirsjáanlegt er að allir Íslendingar fái veiruna eða verði útsettir fyrir henni á næstu vikum þá má eðli málsins spyrja hvaða gagn sé að núverandi sóttvarnaaðgerðum og hverju þær eigi að breyta þegar allt kemur til alls.

* * *

Þessu tengt: Stjórnvöld drógu á dögunum til baka tillögur að reglum um svokallaða vinnusóttkví . Til stóð að rýmka reglurnar svo hægt væri að tryggja starfsemi fyrirtækja þrátt fyrir víðtæk áhrif sóttvarnaaðgerða og mikils fjölda Covid-smita að undanförnu. Alþýðusambandið setti sig gegn þessum breytingum og því voru þær dregnar til baka.

Í fjölmiðlum undanfarna daga hefur aðallega verið fjallað um áhrif sóttvarnaaðgerða á starfsemi grunnskóla og sundlauga. Furðu lítið hefur verið fjallað um hugsanleg áhrif þessa ástands á grunnatvinnuvegina svo eitthvað dæmi sé tekið. Þannig má nefna að ef spádómar Víðis yfirlögregluþjóns rætast og nánast allir Íslendingar verða í sóttkví eða einangrun á næstu vikum mun loðnuvertíðin hanga á bláþræði. Í það minnsta má vera ljóst að ekki má mikið út af bregða ef heilu áhafnirnar á uppsjávarskipum og vaktirnar í bræðslum og frystingu verða ekki dæmdar úr leik vegna sóttvarnaaðgerða um hábjargræðistíma. Furðu lítið hefur verið fjallað um þennan þátt málsins miðað við þá hagsmuni sem í húfi eru.

* * *

Fréttaveitan Keldan ætti að vera lesendum Viðskiptablaðsins að góðu kunn. Á síðasta degi ársins birtust tvær tilkynningar í röð á fréttaveitunni. Önnur fjallaði um að færeysk samkeppnisyfirvöld hefðu samþykkt kaup Orkufélagsins á hlutum Skeljungs í olíufélaginu P/F Magn. Kaupsamningurinn var undirritaður í byrjun desember.

Hin tilkynningin fjallaði um að Rapyd og Arion banki hefðu framlengt samkomulag sitt um kaup fyrrnefnda félagsins á Valitor til 1. maí í ár. Tilkynnt var um kaupin í júlí í fyrra og voru þau gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Gert var ráð fyrir að það lægi fyrir í árslok en sú varð ekki raunin og því var samkomulagið framlengt.

Það er svo sem ekki fréttnæmt að Samkeppniseftirlitið sé svifaseint og að langur tími fari í að fara yfir viðskipti sem koma á borð stofnunarinnar. Stundum virðist sem stofnunin nálgist úrlausnarefni með sama hætti starfsmenn Vatíkansins sem sagðir eru hugsa í öldum en ekki mánuðum. En það vekur eigi að síður upp áleitnar spurningar um starfsemi Samkeppniseftirlitsins þegar sambærilegum stofnunum í nágrannaríkjunum dugir svo skammur tími til þess að skoða ákveðin viðskipti og mynda sér skoðun á þeim.

* * *

Um þarsíðustu helgi fjallaði fréttastofa Ríkisútvarpsins um að stjórnvöld ætli að fella úr gildi skattaívilnanir vegna kaupa á tengiltvinnbílum. Sem kunnugt er þá hefur slík ívilnun verið í gildi og nær hún til einnig til rafbíla og vetnisbíla. Afslátturinn átti að gilda þangað til fimmtán þúsund bílar af hverri tegund höfðu verið seldir. Nú hefur sala á tengiltvinnbílum náð því marki og mun því afslátturinn falla úr gildi. Samkvæmt RÚV gæti þetta orðið til þess að verð á tengiltvinnbílum hækki um tæpa milljón að öllu öðru óbreyttu.

Til þess að varpa frekar ljósi á málið ræddi Ólöf Rún Skúladóttir, fréttamaður RÚV, við Jón Trausta Ólafsson. Honum þykir afleitt að stjórnvöld ætli að fella niður þessa skattaívilnanir. Það vakti athygli fjölmiðlarýnis að Jón Trausti var titlaður sem fyrrverandi formaður Bílgreinasambandsins. Í fyrsta lagi er sérstakt að fréttamenn leiti sérstaklega eftir skoðunum fyrrverandi formanna hagsmunafélaga og í öðru lagi var þess ekki getið í fréttinni að Jón er forstjóri bílaumboðsins Öskju. Sú staðreynd breytir bæði inntaki og vægi fréttarinnar: Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að maður sem stýrir einu stærsta bílaumboði landsins sé því andsnúinn að skattaívilnanir sem gagnast fyrirtækinu séu felldar úr gildi.

* * *

Eins og flestir vita þá hafa ráðuneyti og stofnanir hins opinbera gengið býsna langt í að efla samskiptasvið og almannatengslasvið sín á undanförnum árum. Þessi þróun á sér stað á sama tíma og staða einkarekinna fjölmiðla veikist í sífelldu í samkeppni við ríkisrekna fjölmiðilinn. Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið sýndi ákveðið frumkvæði í þessum efnum í síðustu viku en þá fetaði það í fótspor ljósvakamiðlanna og birti fréttaannál ársins 2021. Vafalaust birtir svo ráðuneytið niðurstöðu kosningar um hver hafi verið maður ársins fyrr en varir. Kunnugir telja að þeir Sigurður Ingi Jóhannsson og Sigtryggur Magnason komi helst til greina þetta árið í valinu.

En miðað við ofangreinda þróun má velta fyrir sér hvað þurfi að gerast til þess að Fjölmiðlanefnd taki ráðuneyti og opinberar stofnanir sömu tökum og vinsæl hlaðvörp um knattspyrnu og krefjist að þau skrái sig sem fjölmiðil hjá nefndinni.

Að því sögðu væri svo áhugavert ef einhverjir fjölmiðlar kölluðu eftir því hvaða ástæður eru fyrir því að ráðuneyti gefi út efni á borð við fréttaannála og hvaða hlustun hlaðvarp opinberrar stofnunar á borð við Fjölmiðlanefnd fær.

* * *

Á fréttasíðu Vísis á þriðjudagsmorgun fyrir tæpri viku blasti við sláandi fyrirsögn:  Björn Ingi segir óbólusetta útlendinga „bleika fílinn í stofunni". Var þar vísað til skrifa Björns Inga Hrafnssonar blaðamanns á fréttasíðunni Viljinn. Af einhverjum ástæðum hefur það færst í vöxt að blanda saman orðtækinu um að haga sér eins og fíll í postulínsbúð annars vegar og myndmálinu um að sjá bleika fíla hins vegar. Það fyrrnefnda á við þegar einhver hagar sér klunnalega og það síðarnefnda við ofsjónir vegna ofdrykkju. Í raun kallast svo þessi fyrirsögn einnig á við enska orðtækið um fílinn í herberginu en með því er átt við þegar hópur manna kemur sér saman um að tala ekki um aðkallandi vanda eða aðsteðjandi vá.