*

miðvikudagur, 26. febrúar 2020
Brynjar Örn Ólafsson
18. janúar 2020 13:39

Erlendir aðilar eiga 40% hlutabréfa í nágrannaríkjum

Þátttaka erlendra fjárfesta á hlutabréfamarkaði í Noregi og Svíþjóð er nærri tvöfalt meiri en hér en hagnaður íslenskra félaga verðlagður hærra.

Þátttaka erlendra fjárfesta á hlutabréfamarkaði í Noregi og Svíþjóð er nærri tvöfalt meiri en hér. Þrátt fyrir minni þátttöku er hagnaður íslenskra félaga verðlagður hærra. Hagur innlendra aðila getur vænkast við innkomu erlendra fjárfesta.

Samkvæmt Seðlabanka Íslands hafa íslenskir lífeyrissjóðir átt um 40% af skráðum innlendum hlutabréfum á síðustu fimm árum. Öll samræming við erlenda viðskiptahætti auðveldar innkomu erlendra aðila og lífeyrissjóðunum þá vegferð að dreifa áhættu án þess að hafa neikvæð áhrif á gengi krónunnar eða fjármunamyndun þjóðarbúsins.

Víkur sögunni að þátttöku erlendra fjárfesta í gagnsæjum hluta innlends atvinnulífs. Samkvæmt Nasdaq á Íslandi nam eignarhlutur erlendra aðila í skráðum hlutabréfum um 21% í ágúst síðastliðnum. Í Noregi hefur hlutfallið verið að meðaltali 35% frá árinu 1999 miðað við tölur frá kauphöllinni í Osló og var 39% árið 2018. Samkvæmt seðlabanka Svíþjóðar hefur hlutfallið þar í landi verið ívið hærra eða um 40%, auk þess sem bróðurpartur erlendra hlutabréfaeigenda á rætur sínar að rekja til Englands, Lúxemborgar og Bandaríkjanna.

Er hægt að fullyrða um að fjárfestingar erlendra aðila valdi bólumyndun á hlutabréfamarkaði? Ef tekið er tillit til hlutfalls virðis á móti hagnaði (VH-hlutfall) sem nálgun á hvað markaðsaðilar vilja borga fyrir hverja krónu í hagnaði má sjá að það er rúmlega 20 á norsku vísitölunni OSEBX en um 18 á OMXS30 í Stokkhólmi samkvæmt Bloomberg. Í lok síðasta árs var hlutfallið fyrir íslensku vísitöluna (OMXI10) hærra eða um 42, líkt og sjá má á gögnum síðunnar hi.is/~boo4. Leiðrétt fyrir skammtímasveiflum hagnaðar vísitalnanna er hlutfall OMXI10 enn yfir hinum tveimur, með virði um 31 sinnum hver króna hagnaðar á móti 22 hjá OMXS30 og 16 á OSEBX.

Fordæmi eru um að hlutfallið hækki fyrir einstök bréf við innkomu erlendra fjárfesta líkt og myndin sýnir fyrir Marel hf. og Össur hf. Félögin eiga sammerkt að hlutir þeirra hafa verið teknir til viðskipta erlendis samhliða innlendri skráningu. Össur sótti um tvískráningu um mitt ár 2009 í Nasdaq í Kaupmannahöfn og hófust viðskipti með hluti félagsins í september sama ár. Á sama tíma og verð félagsins tvöfaldaðist var VH-hlutfall félagsins að jafnaði um 40% hærra sex mánuði eftir tvískráningu félagsins en hálfu ári fyrir skráningu.

Álíka sögu er að segja af tvískráningu Marels í Euronext kauphöllinni frá því í júní síðastliðnum en tilkynnt var um áformin á aðalfundi félagsins í byrjun mars. Samhliða ríflega 65% verðhækkun á hlutum félagsins var VH-hlutfallið að meðaltali um helmingi hærra sex mánuðina eftir tvískráningu en sex mánuði á undan.

Hverjir eru það sem aðallega hagnast á aukinni þátttöku erlendra fjárfesta? Ef marka má hluthafalista þessara tveggja fyrirtækja eru það íslensk heimili í gegnum lífeyrissjóði og aðrir innlendir fjárfestar.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.