Það hefur verið sérdeilis líflegt íþróttamannlífið síðustu misserin. Aníta Hinriksdóttir ásamt fleiri ungmennum að keppa á HM ungmenna í frjálsum íþróttum í Bandaríkjunum, heimsleikarnir í Cross Fit nýliðnir þar sem við íslendingar áttum frábæra fulltrúa, Tour de France stendur sem hæst svo ekki sé minnst á alla innlendu viðburðina. Ég er einn af þeim sem fylgist með öllum íþróttum og hef gaman af en finn þó einn hæng á. Það er að „keppnis“ genið hrekkur í gang við hvern viðburð og verður hin daglega æfingarútína tímabundið ansi lítilfjörleg í samanburði. Þá reikar hugurinn líka tímabundið að keppnum ársins og finnst mér ég ekki maður með mönnum nema vera skráður í nokkra viðburði yfir árið, vera svolítið „keppnis“!!

WOW hjólreiðakeppnin fór fram í lok júní með frábærum árangri allra sem tóku þátt. Þar voru fjórir sem luku keppni í einstaklingsflokki og hjóluðu þeir einir hringinn í kringum landið á innan við fjórum dögum. Esjuhlaupið fór einnig fram í lok júní og þar voru nokkrir sem fóru 11 ferðir upp og niður í einu og sá fremsti á rétt rúmlega 10 klukkustundum.

Ég hef því reglulega undanfarið þurft að minna mig á að þótt ég fari „bara“ í klukkutíma hjólreiðatúr eða „bara“ eina ferð á Esjuna þá er það góð og gild æfing fyrir mig og um leið mikil heilsubót.

Öll ofangreind afrek eru aðdáunarverð og ég tek ofan af fyrir öllum þeim sem stíga þessi skref og hef ég sjálfur mikla ánægju af því að ögra sjálfum mér með krefjandi verkefnum annað slagið. Það er þó ekki síður mikilvægt að við áttum okkur á því að við þurfum ekki öll alltaf að vera „keppnis“. Verum með á okkar eigin forsendum því öll höfum við okkar persónulegu áskoranir til að takast á við.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 7. ágúst 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.