*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Örn Arnarson
20. mars 2020 06:55

ESB í sóttkví

„Í raun og veru hefur ESB ekki haft neitt til málanna að leggja í baráttunni gegn þeim faraldri sem nú geisar.“

epa

Ástandið á Ítalíu er ískyggilegt. Óttinn um að það sé boðberi þess sem koma skal í fleiri ríkjum Evrópu er nístandi. Af þessum sökum vekur aðgerðarleysi ESB og ekki síst Evrópska seðlabankans (ECB) upp áleitnar spurningar.

Í raun og veru hefur ESB ekki haft neitt til málanna að leggja í baráttunni gegn þeim faraldri sem nú geisar. Ekki annað en að apa upp bann fjölda aðildarríkja um frjálsa för þegna sambandsins milli aðildarríkjanna. Bann sem hlýtur að grafa til lengri tíma litið undan einni af fjórum veigamestu stoðum Evrópusamrunans: Fjórfrelsinu.

Aðgerðaleysi ECB vekur ekki síður furðu. Þegar bankastjórinn, Christine Lagarde, kynnti á dögunum aðgerðir til styðja við framboð á lánsfé vegna plágunnar á dögunum tók hún sérstaklega fram að það væri verkefni hvers aðildarríkis fyrir sig að afstýra niðursveiflu. Þau skilaboð féllu í grýttan jarðveg á mörkuðum. Þrátt fyrir að þau kunni að eiga rétt á sér út frá kenningum gerilsneyddra töfluhagfræðinga þá mörkuðu þau ákveðna breytingu á þeim kúrs sem var tekinn mitt í skuldakreppu evrusvæðisins sem skall á af fullum þunga 2008.

Skilaboðin nú voru að peningamálastefnunni yrði ekki beitt í þágu aðildarríkjanna. Að nú verði hver að bjarga sér sem best getur.

Nú kann að vera að stefnunni verði breytt á endanum. Það kann að vera um seinan. Þrátt fyrir að vextir hafi verið í sögulegu lágmarki um árabil eru vanskil í ítalska bankakerfinu helmingi meiri en gengur og gerist á evrusvæðinu. Í raun hefur ítalska hagkerfið aldrei jafnað sig á fjármálakreppunni og stöðnunin var hafin áður en hún skall á - hagkerfið er þannig aðeins 5% stærra en það var fyrir tuttugu árum.

Ítalía er ekki kanarífugl í kolanámu svo gripið sé til þreytts líkingamáls viðskiptablaðamanna. Ítalía er aftur á móti ein af burðarstoðum Evrópusamrunans svokallaða. Aðgerðaleysi meginstofnana þess samruna meðan hriktir í hlýtur á endanum hafa veigamiklar breytingar í för með sér.

Höfundur er sjálfstætt starfandi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.