Um síðustu áramót urðu flestir Íslendingar líffæragjafar. Þá tóku gildi lög sem gera ráð fyrir samþykki þeirra fyrir líffæragjöf sem ekki hafa tilgreint annað. Með lögunum fór Alþingi sömu leið og Frakkland, en þar eru 99% íbúa á lista yfir líffæragjafa.

Til samanburðar er hlutfallið einungis 20% í Danmörku. Þennan mikla mun má rekja til sjálfgefinna áhrifa. Þau lýsa sér þannig að við erum líklegri til að velja valkost ef hann er sjálfgefinn – ef við þurfum ekki að gera neitt til að velja hann. Danir þurfa að skrá sig til að gefa líffæri, en Frakkar þurfa að skrá sig til að gefa þau ekki.

Við sjáum þessi áhrif líka á netinu. Áður en ný persónuverndarlöggjöf tók gildi var sjálfgefni valkosturinn að fá sent markaðsefni þegar maður skráði netfangið sitt á vefsíðum.

Núna er þessu vali hins vegar snúið við; það þarf að velja það sérstaklega kjósi fólk skrá sig á póstlista. Fjölgun nýrra áskrifenda dróst saman um 90-99% hjá mörgum fyrirtækjum í kjölfarið. Sjálfgefin áhrif eiga sér líklega skýringu. Það krefst tíma og orku að bera saman valkosti og velja þann besta.

Ef niðurstaðan skiptir litlu máli er einfaldast að sleppa samanburðinum alfarið og spara sér þannig fyrirhöfnina. Það má nýta sér sjálfgefin áhrif í daglegu lífi. Til dæmis geturðu tekið frá fastan tíma vikulega til að vinna að mikilvægu verkefni, lesa bók eða læra eitthvað nýtt.

Önnur leið er að skrá sig í reglulega tíma í hreyfingu með vinum eða hjá þjálfara. Með þessum hætti færðu letina með þér í lið. Sjálfgefna valið verður að vinna reglulega að persónulegum markmiðum – en það verður eintómt vesen að gera ekki neitt.

Höfundur er hagfræðingur.