*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Andrés Magnússon
6. janúar 2018 13:43

Falsfréttir ársins

Það má áfellast fjölmiðlana fyrir að hafa vanrækt að greina betur frá málefnunum í kosningabaráttunni vestanhafs.

epa

2017 var í margra hugum ár falsfrétta (e. Fake News), þó auðvitað hafi þær látið á sér kræla fyrr. Á liðnu ári voru hins vegar fleiri meðvitaðir um þær og mögulegar afleiðingar, þó auðvitað ættu menn að fenginni reynslu einnig að trúa þeim tröllasögum varlega! 

Það hefur reynst erfitt að festa hendur á falsfréttunum, uppruna þeirra og áhrifum. Þannig var mikið rætt um hvernig framboð Donalds Trumps hefði notað falsfréttir í stórum stíl og hugsanlega hefði forsetinn beinlínis náð kjöri fyrir tilstilli þeirra.

Það var raunar Trump sjálfur, sem kom orðinu rækilega í umræðuna, alla leið í orðabækur, en hann notar það fyrst og fremst um fréttir hefðbundinna fjölmiðla, sem eru honum mótdrægar og hann telur að séu sagðar af pólitískum hvötum. 

David Cameron, fyrrv. forsætisráðhera Breta, vék að því í fyrirlestri hjá Transparency International í Lundúnum í liðnum mánuði og ávarpaði forsetann yfir hafið: 

Leyf mér að orða það svo, Trump forseti: Falsfréttir eru ekki gagnrýni [fjölmiðla] á þig, heldur rússneskir bottar og tröll, sem hafa bandarískt lýðræði að skotspæni — dæla út ósönnum fregnum dag eftir dag, nótt eftir nótt. Þegar þú misnotar hugtakið falsfréttir ertu að draga athyglina frá hinni raunverulegu svívirðu.   

                                                 ***

Kannski hafa menn þó gert of mikið úr áhrifum falsfrétta, ekki síst hvað varðar hinn óvænta kosningasigur Trumps. 

Auðvitað má nefna ótal dæmi um falsfregnir, upprunnar austan úr Rússlandi, sem voru magnaðar ofan í tiltekna hópa á félagsmiðlum, sérstaklega á Facebook, en Google og Twitter eiga einnig sök. „Fréttum“, sem ólu á pólitískri skautun almennings og gerðu ekkert honum til upplýsingar í aðdraganda forsetakosninganna í nóvember 2016. 

Fræðimennirnir Duncan J. Watts og David M. Rothschild birtu nýverið niðurstöður rannsóknar sinnar á þessu öllu í Columbia Journalism Review, en niðurstaðan hjá þeim var sú, að vildu menn endilega kenna einhverjum um niðurstöður kosninganna, þá væri þeim nær að sakast við hefðbunda fjölmiðla en falsfréttir!

Rannsóknin sýndi fram á að í fyrsta lagi hefðu fregnir af falsfréttum (margar byggðar á hæpinni fréttaskýringu Buzzfeed frá 2016) verið mjög orðum auknar og raunar ekki síður til þess fallnar að hafa áhrif á kosningahegðun og niðurstöður kosninganna.

Tíndar hefðu verið til margvíslegar tölur um falsfréttir og þá fjármuni, sem varið hefði verið til þess að dreifa þeim, en þær ekki settar í neitt samhengi. Að öllu virtu hefði sú dreifing aðeins numið um 0,1% af keyptri dreifingu á Facebook. Notendavirkni á Facebook (læk, deiling o.s.frv.) af völdum falsfrétta hefði ekki síður verið hverfandi og takmarkaðar í útbreiðslu.

Nú má auðvitað vera að falsfréttirnar hafi verið einstaklega marksæknar og sannfærandi og þannig haft meiri áhrif en þessar tölur gefa til kynna. Tölfræðirannsóknir benda hins vegar til þess að hver þessara falsfrétta hafi þurft að vera 30 sinnum áhrifameiri en hefðbundin kosningaauglýsing til þess að hafa skipt sköpum í þeim lykilríkjum, sem baggamuninn riðu í kosningunum. Heldur verður það að teljast ósennilegt. 

Ekki síst þegar haft er í huga hvað margar þessara falsfrétta voru yfirgengilegar og ótrúlegar. Þær kunna að hafa stappað stálinu í stropuðustu fylgismenn frambjóðendanna, en það er mikið vafamál að þær hafi snúið mörgum. 

— Hitt er svo auðvitað athyglisvert að markaðsdeild Facebook hefur gert mikið úr viðleitni sinni til þess að uppræta falsfréttir, en hins vegar alls ekki mótmælt neinu um áhrif þeirra. Sem varla kemur á óvart í ljósi þess að undanfarna mánuði hefur Facebook orðið opinbert að margháttuðum rangfærslum um útbreiðslu, áhorf og áhrif bæði auglýsinga og færslna. 

                           ***

Rannsókn Watts og Rothschild er ekki síður fróðleg að því sem lýtur að hefðbundnu fjölmiðlunum og „sök“ þeirra á því hvernig fór í kosningnum. Þegar horft er til frétta á félagsmiðlum hefðu hefðbundnir miðlar á borð við Washington Post, The New York Times, HuffPost, CNN, og Politico (flestir vel til vinstri við miðju), algerlega drekkt falsfréttunum. Gamanið fór þó fyrst að kárna þegar farið var að greina efni frétta hefðbundnu miðlanna.

Setningar um Hillary Clinton voru fjórum sinnum líklegri til þess að fjalla um einhvern þátt hneykslismála hennar en stefnumál, en setningar þeirra um Trump voru 1,5 sinnum oftar um stefnumál en hneyksli honum tengd. Voru þau þó ekki fá og hefðbundnu miðlarnir léku lykilhlutverk við að upplýsa þau. Það segir sína sögu að fleiri setningar fjölluðu um tölvupósta frú Clinton en öll hneyksli Trump samanlögð (og tvöfalt fleiri en um öll stefnumál hennar!). 

Blandaðist þó engum hugur um að allir þessir miðlar voru á hennar bandi. Þar að baki bjuggu engir keðjureykjandi hakkararar við Volgubakka, heldur vandaðir og velmenntaðir, lattelepjandi blaðamenn (sem rannsóknir vestanhafs sýna að halla langflestir vel til vinstri við þjóðina). 

                           ***

Til þess að grafast frekar fyrir um þetta var fréttaflutningur New York Times rannsakaður sérstaklega. Blaðið hefur verulega útbreiðslu, bæði meðal almennings og hinna talandi stétta stjórnmála og fjölmiðla, en eins hefur það orð á sér fyrir alvörugefna og tæmandi blaðamennsku. Ef ekki var fjallað um eitthvert málefni kosningabaráttunnar í því, var ósennilegt að lesa mætti um það annars staðar. Loks kemur það út á pólitískum heimavelli beggja frambjóðendanna. 

Rannsóknin tók til allra frétta blaðsins (bæði á prenti og neti) í 69 daga á lokaspretti kosningabaráttunnar, en forsíðufréttirnar voru skoðaðar sérstaklega, enda þær fréttir sem blaðið leggur mesta áherslu á og líklegast er að mesta athygli veki. 

Af þeim 150 forsíðufréttum, sem lutu að kosningabaráttunni, var ríflega helmingurinn (80) um kosningabaráttuna almennt, pólitík sem kappleik. Liðlega þriðjungur (54) voru um hneyksli frambjóðendanna (29 um Trump, 25 um Clinton). Loks var um tíund fréttanna, 16 alls, sem fjölluðu um málefnin! Sex þeirra voru án nokkurra smáatriða, fjórar fjölluðu aðeins um málefni Trump, ein aðeins um málefni Clinton, en fimm báru málefni frambjóðendanna á einhvern hátt saman. Það má teljast með algerum ólíkindum í þessarri sögulegu kosningabaráttu, ekki síst í blaði sem lætur jafnvirðulega og The New York Times. 

                           ***

Ekkert bendir til þess að fréttaflutningur New York Times hafi verið verri eða á aðra leið en hjá helstu, hefðbundu fjölmiðlum öðrum þar vestra (eða í miðlum annars staðar í heiminum, sem flestir treystu mati sinna bandarísku kollega). 

Það má hins vegar ljóslega áfellast miðlana fyrir að hafa vanrækt að greina betur frá þeim málefnum, sem mestu varðaði í baráttunni, en haldið sig við einfaldari frásagnir, sem oftar en ekki fylgdu (meðvitað eða ómeðvitað) þeim furðulega söguþræði, sem Donald Trump spann á Twitter dag hvern og nótt hverja. Þau mistök kunna að vera skiljanleg — flestir fjölmiðlamenn vestra trúðu því fram á hinstu stund að frú Clinton hefði ótvíræðan sigur — en þau eru ljóslega mistök samt. 

Þau kunna líka að vera skiljanleg, hin mannlegu viðbrögð, að forðast að hofast í augu við og viðurkenna víðtæk og sameiginleg mistök flestra fjölmiðla í fréttaflutningi kosningabaráttunnar. Sem þá skýra hvernig skuldinni hefur verið skellt á allt og alla aðra: falsfréttir, rússneska hakkara, netrisana og algrím þeirra, jafnvel fáfræði kjósenda! 

                           ***

En það stenst ekki. Án þess að gera lítið úr skaða falsfrétta, meinfýsninni að baki þeirra eða völdum netrisa verður ekki litið hjá því að hefðbundir og heiðvirðir miðlar þurfa bara að vera duglegri við að flytja þær fréttir, sem máli skipta. Af sanngirni, hlutleysi og heiðarleika. Aðeins þannig má sigrast á falsinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.