Nokkuð hefur verið rætt um falsfréttir og áhrif þeirra undanfarnar vikur og þá sérstaklega í fjölmiðlum vestanhafs í kringum forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. T.a.m. hafa netrisar á borð við Google og Facebook sagt að það standi til að taka verulega á röngum upplýsingum og útbreiðslu þeirra.

Það liggur engan veginn fyrir hvernig baráttan við falsfréttir verður háð eða hver eigi að vera þar í forystu. Algóritmar og tölvur geta ekki lagt mat á það hvað sé satt og hvað ósatt. Hver á að vera úrskurðaraðili um sannleiksgildi upplýsinga og hvaða mælistiku á að nota? Hvernig er hægt að bera kennsl á uppspuna eða aðgreina markvisst skoðun og staðreynd? Hverjar yrðu afleiðingarnar fyrir málfrelsið?

Í umræðunni um málfrelsi hefur það lengi verið viðkvæðið að hinn „frjálsi markaður“ hugmynda og upplýsinga eigi sjálfur að uppræta uppspuna. Markaðslíkingin ber með sér að sannleikurinn keppi við rangar upplýsingar þar til fáránleiki uppspunans hefur runnið sitt skeið og sannleikurinn stendur eftir.

Það felur þó í sér sannleikspróf þar sem samþykki meirihlutans nægir til þess að upplýsingar – hvort sem þær eru réttar eða rangar – öðlist sannleiksgildi. Þannig er ákveðinn „markaðsbrestur“ til staðar í frjálsum samskiptum þar sem falsupplýsingar í raun kæfa sannleikann um óákveðinn tíma, hvort sem menn gera sér grein fyrir því eða ekki. Gott dæmi um slíkan markaðsbrest er þegar einhver öskrar „ Sprengja! “ í mannþröng í verslunarmiðstöð – hvort sem honum er alvara eða ekki – með þeim afleiðingum að allir taki mark á honum og forði sér á brott eins fljótt og hægt er.

Rannsóknir og framleiðsla, úrvinnsla og framsetning á sönnum upplýsingum er þar að auki kostnaðarsamt ferli, en framleiðsla á falsfréttum þarfnast aðeins ímyndunarafls. Þar að auki ríkir vandi ósamhverfra upplýsinga á milli þeirra sem skrifa fréttir og þeirra sem lesa þær, þ.e. sá sem skrifar frétt veit að öllum líkindum meira um uppruna hennar og sannleiksgildi heldur en sá sem les hana. Vandamál ósamhverfra upplýsinga felur í sér að gæði upplýsinga á markaði geta rýrnað með kerfisbundnum hætti.

Vegna mismunandi gæða eru upplýsingar og fréttir ekki ókeypis. Sá sem kaupir upplýsingar eða eyðir tíma í að lesa fréttir á netinu (sem felur í sér fórnarkostnað) lágmarkar líkurnar á því að afla falsupplýsinga með því að greiða meðalverð fyrir fréttir eða taka á sig meðalkostnað. Eðlilega er síðan er ávallt tilhneiging til að greiða sem lægst verð eða komast hjá því að greiða fyrir þjónustu. En þá rata gæðameiri upplýsingar, sem bera hærri verðmiða, ekki endilega til neytenda. Ófullnægjandi upplýsingar um sannleiksgildi frétta leiðir því í mörgum tilvikum til hrakvals, þar sem neytendur taka „ranga“ ákvörðun og afla falsfrétta. Gæðalitlar upplýsingar ryðja því gæðamiklum upplýsingum frá markaði. Þetta er hið klassíska „sítrónu vandamál“ bandaríska hagfræðingsins David Akerlofs.

Klassíska svarið við markaðsbresti er að leiðrétta hann með ríkisíhlutun og reglugerðum. En aðgerðir af því fela í sér gríðarlegt vald hjá skriffinnskubákni í einhverju „Staðreyndaráðuneyti“ eða „Sannleiksráðuneyti“, sem hafa myndi það vafasama hlutverk að leggja dóm á sannleiksgildi upplýsinga og „staðreynda“ fyrir samfélagið með vali og höfnun upplýsinga, ritskoðun, eftirliti og stýringu á umræðunni þannig að hún sé ríkisvaldinu þóknanleg. Þá er málfrelsinu kastað fyrir róða og öllum skoðunum fórnað á rekkju Prókrústesar.

Siðfræðilega séð er rangt að segja ósatt og skrökva. Þess vegna notum við orð eins og „lygar“. Annars vegar er það eðlileg krafa að þeir sem segi fréttir geri það á óhlutdrægan hátt – annars eru það ekki fréttir. Á hinn bóginn er ekki hægt að setja það í lagasetningu á Alþingi að einstaklingum og stofnunum beri eingöngu að segja satt, vegna þess að það kallar á eitthvert yfirvald sem sker úr um það hvað sé satt og hvað sé logið. Þá er ábyrgðin tekin af einstaklingnum af því að vega og meta það upp á eigin spýtur.

Val á upplýsingum og ákvarðanir út frá þeim leiðir aldrei til fullkominnar niðurstöðu, en einstaklingar verða að axla þá ábyrgð.