Fyrir fréttafíkla er fátt skemmtilegra en desemberlok, þegar fjölmiðlar reyna að rissa upp mynd af árinu með því að taka saman stærstu fréttir þess. Íslenski skemmtanaiðnaðurinn komst til dæmis rækilega á kortið á árinu þegar framleiðslufyrirtæki fjögurra erlendra stórmynda ákváðu að kvikmynda hér á landi. Í stjórnmálunum lagðist ris og hnig stjórnmálamanna í prófkjörum ofan á hefðbundið dægurþras og átök um deilumál. Á hlutabréfamarkaði voru það nýskráningar stórfyrirtækja sem lituðu árið. Í viðskiptalífinu ber e.t.v. hæst 50 milljarða fjárfesting Amgen í Íslenskri erfðagreiningu. Svona mætti áfram telja.

Í stuttu máli má þannig segja að markmiðið með þessari annálagerð sé að smætta einhverja stærri þróun niður í einkennandi atburði.

Að týnast í annálunum

Vandinn við þessa nálgun er sá að markaðir sem einkenndust ekki af neinum stórviðburðum eiga það á hættu að verða hornreka líkt og ekkert merkilegt hafi hent þá. Þetta á til dæmis við um þann eignamarkað sem færa má rök fyrir að sé sá mikilvægasti í hugum heimila landsins — nefnilega fasteignamarkaðinn. Þótt það sé kannski djarft, jafnvel ómögulegt, að reyna að tímasetja slíkt með ártali, þá má færa fyrir því rök að árið 2012 hafi fasteignamarkaðurinn staðið á merkilegum krossgötum, þótt hljótt hafi farið.

Sjúklingurinn útskrifaður 2012

Í nýrri fasteignaskýrslu greiningardeildar Arion banka er fasteignamarkaðnum lýst sem sjúklingi í bataferli. Einhvertímann á árabilinu 2004 til 2008 má segja að markaðurinn hafi smitast af sjúkdómi þegar bóla myndaðist fyrir margra hluta sakir (ætli það fari þá ekki vel á að kalla þennan sjúkdóm bólusótt?). Á árunum 2008 til 2009 gekk markaðurinn í gegnum uppskurð, þegar sársaukafull leiðrétting fasteignaverðs átti sér stað, og lá í kjölfarið á gjörgæslu þegar fá viðskipti áttu sér stað og markaðurinn var botnfrosinn. Legan stóð svo yfir á árunum 2010- 2011 þegar niðurfellingar skulda komu til og verð náði endanlega botni.

Árið 2012 má svo segja að sjúklingurinn hafi verið útskrifaður af sjúkrahúsinu, og sé hægt og bítandi að verða fullfrískur í meðferð á göngudeild — þótt enn hrjái margir veikleikar markaðinn.

En þótt það sé hægur vandi að tala um útskrift í líkingamáli var enginn einn atburður sem markaði þessi tímamót. Frekar má segja að um samansafn batamerkja sé að ræða, sem sjást ekki endilega nema þau séu skoðuð í samhengi — batinn er hægfara og hljóður.

Batamerkin

Uppsöfnuð hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu síðan raunverð náði botni undir árslok 2010 nemur ríflega 15%, en það er rúmlega fimm próstentustigum umfram hækkun verðlags. Þótt stór hluti þeirrar hækkunar hafi komið fram á árinu 2011 hélt verðið engu að síður velli á árinu 2012. Í október hafði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 6% frá fyrra ári, en raunhækkun nam rúmu 1%. Það er mikilvægt skref í bataátt að geta treyst því að verðmæti fasteignar rýrni ekki að raunvirði.

Mikilvægara en verðþróunin er þó að viðskipti eru að glæðast. Veltan á fasteignamarkaðnum jókst um 23% á höfuðborgarsvæðinu á milli ára á árinu 2012, á sama tíma og kaupsamningum fjölgaði um 16%. Afskriftir fjármálastofnana á yfir 200 milljörðum af skuldum heimilanna hafa eflaust átt þar hlut að máli, en fasteignalán ein voru færð niður um meira en 150 milljarða.

Það er þó engum blöðum um það að fletta að margir eru enn í erfiðri stöðu — sérstaklega ungt fólk sem keypti á árunum 2005 til 2008 með lítið sem ekkert eigið fé. Góðu fréttirnar eru þær að stórir árgangar ungs fólks, sem ekki brenndu sig í hruninu, munu koma til með að koma inn á fasteignamarkaðinn á næstu árum og kaupa við sæmilega heilbrigðar aðstæður á markaði. Þetta er hópur sem er lítið skuldsettur, og mun gegna lykilhlutverki í bata fasteignamarkaðarins.

Vonir standa til að hann muni bjóða upp verðið á minni fasteignum eftir því sem efnahagsbatanum vindur fram og kaupmáttur eykst, og losa þar með um eiginfjárgildruna sem margir eru fastir í.

Fasteignamarkaðurinn frískur?

Það þekkja allir sem lagst hafa undir skurðarhníf að það tekur lengri tíma að jafna sig eftir stórar aðgerðir en sem nemur legunni á sjúkrarúminu. Þetta á jafnframt við um fasteignamarkaðinn. Það væri ofsögum sagt að segja að hann hafi orðið fullfrískur á árinu 2012. En teiknin benda til þess að hann fari hressari inn í árið 2013 en verið hefur í hálfan áratug.

Grein Hafsteins birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins sem kom út á milli jóla og nýárs.