Týr hefur verulega áhyggjur af skilningsleysi stjórnmálamanna á eyðileggingarmætti verðbólgunnar og hvaða verkfæri dugi best við að ná henni í niður.

Ekki minnkuðu áhyggjurnar þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og benti á að þrátt fyrir hækkanir launa æðstu embættismanna væru um raunlaunalækkun vegna verðlagsþróunar.

Það er hreint ótrúlegt að fjármálaráðherra og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins beri jafn lítið skynbragð efnahagsástandið sem nú er uppi.

Það að afsaka launahækkanir æðstu embættismanna með því að segja að þær séu raun aðeins upp í nös á ketti þar sem að þær haldi ekki í við þróun verðlags er ákaflega taktlaust.

***

Raunlaun lækka jafnan á verðbólgutímum. Það er kjarni eyðileggingarmáttar verðbólgunnar. Hún rýrir lífskjör. Þess vegna er nauðsynlegt að allir leggist á sömu ár og stefni að því marki að koma á verðlagsstöðugleika.

Ekki er þess að vænta að ríkisvaldið leggi sitt á vogarskálarnar meðan að silkihúfur í röðum æðstu embættismanna finnst skrýtið að sjálfkrafa launahækkanir þeirra haldi ekki við verðlagsþróun á þessum verðbólgutímum.

Þetta bendir til þess að skynbragð þeirra á stöðu hins almenna launamanns sé takmarkað í þessu árferði.

***

Týr hefur furðað sig á fleiru sem hefur komið frá fjármálaráðherra undanfarið.

Þannig sagði hann í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins þann 26. maí að fjárlögin í ár styddu „ágætlega við markmið um lækkandi verðbólgu“!

Tý finnst ótrúlegt ef fjármálaráðherra telur að fjárlög sem gera ráð fyrir 120 milljarða halla í mikilli þenslu styðji vel við verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Og til þess að sýna frekar hversu utan gáttar fjármálaráðherra er sagði hann í sama viðtali að ríkisstjórnin væri að velta fyrir sér frekari aðhaldsaðgerðum.

Það er ekki von á góðu ef að ríkisstjórnin telur álitamál hvort að grípa eigi til aðhalds í ríkisrekstrinum um þessar mundir og bendir til þess að ef það verður gripið til aðgerða verður það um seinan og þrálát verðbólga og háir festast í sessi vegna aðgerðarleysis stjórnvalda.

Týr er einn af reglulegum pistlum Viðskiptablaðsins.