*

þriðjudagur, 22. september 2020
Einar Gunnar Guðmundsson
10. september 2020 13:24

Fleiri Marel og Össur með vísifjármagni

Íslenskir vísisjóðir þurfa að vera stærri til að geta fylgt eftir sínum fjárfestingum segir sérfræðingur í nýsköpun.

Risastórar fréttir á síðustu tveimur vikum úr íslensku nýsköpunar- og fyrirtækjaumhverfi. Fjögur íslensk fyrirtæki og eitt danskt með íslenskan stofnanda tilkynntu ánægjulegar fréttir. Fyrirtækið GRID, með Hjálmar Gíslason í fararbroddi, tryggði sér 1,6 milljarð króna í fjármögnun, aðallega frá erlendum fjárfestum. Kerecis, með Guðmund Fertram í fararbroddi, tryggði sér um 3 milljarða króna fjármögnun, aðallega frá erlendum fjárfestum. Fyrirtækið Unity, sem er danskt að uppruna, með stofnandann Davíð Helgason í fararbroddi, stefnir á skráningu á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum. Virði fyrirtækisins er a.m.k. 750 milljarðar króna. Fyrirtækið Avo, með Stefaníu Ólafsdóttur í fararbroddi, tryggði sér rúmlega 400 milljónir króna í fjármögnun. Fjórða íslenska fyrirtækið, CarbFix, tilkynnti að það hefði gert samstarfssamning við fyrirtækið Climeworks um að fjarlæga 4.000 tonn af koltvísýringi úr andrúmsloftinu á ári með tæknilausn sinni.

Hugvitsdrifin fyrirtæki en ekki auðlindadrifin

Atvinnulífið þekkir vel sögu Marels, Össurar og CCP. Þegar rætt er um nýsköpunarumhverfið á Íslandi er því gjarnan velt upp af hverju fleiri sambærileg fyrirtæki hafa ekki vaxið á Íslandi frá rótum. „Við þurfum fleiri Marel og Össur“ er mantra sem klifað er á, því virðið sem fyrirtækin hafa skapað í formi þekkingar, rannsókna og fjármagns eru fordæmalaus í íslenskri samtíðarsögu. Nokkrir þættir þurfa að vera til staðar í innviðunum til þess að fleiri sterk hugvitsdrifin fyrirtæki verði til.

Menntakerfið þarf að stuðla að því að til verði þekking sem kemur að gagni við þróun hugvitstengdra lausna. Stuðningur við ung fyrirtæki og frumkvöðla þarf að vera til staðar á ólíkum stigum. Sá stuðningur hefur farið vaxandi og þroskast síðustu ár og er nú orðinn prýðilegur í alþjóðlegum samanburði. Hið opinbera þarf jafnframt að hafa skýra stefnu um hvað og hvernig skuli styðja við nýsköpun. Sú stefna hérlendis er einnig orðin prýðileg í alþjóðlegum samanburði. Flestir skilja virðið í því að skapa fleiri hugvitsdrifin fyrirtæki en auðlindardrifin, því hugvitið á sér engin takmörk, annað en auðlindir lands og sjávar. Hugvitsdrifin fyrirtæki byggja þó mörg hver nýsköpun sína í upphafi í kringum stórar greinar sem fyrir eru, t.d. Marel í kringum íslenskan sjávarútveg og Kerecis einnig.

Árangur krefst fjármagns og úthalds

Stofnun og vöxtur fyrirtækja gerist þó ekki með hugvitinu einu saman. Til þess þarf líka heilbrigða blöndu af umtalsverðu fjármagni og tíma. Árangur Marels, Össurar og CCP byggja augljóslega á hugviti. Viðlíka árangur hefði hins vegar aldrei orðið að veruleika nema að fjármagnseigendur hefðu séð möguleikana og fjárfest myndarlega í fyrirtækjunum. Góðir fjárfestar og hluthafar styðja við og leiðbeina stjórnendum við krefjandi verkefni. Góðir fjárfestar þurfa reyndar líka stundum að skrúfa fyrir fjármagnið, og jafnvel slökkva á fyrirtækjum sem af einhverjum ástæðum ná ekki tilætluðum árangri. Kasta ekki krónunni fyrir aurinn.

Þar sem fjárfesting í ungum fyrirtækjum er áhættusöm, skiptir máli að þekkja vel til þess að vinna með frumkvöðlafyrirtækjum og stofnendum þeirra. Jafnframt er mikilvægt fyrir vísisjóði að móta sér skýra fjárfestingastefnu og víkja sem allra minnst frá henni. Síðast en ekki síst þarf að dreifa áhættunni með því að fjárfesta í mörgum ungum fyrirtækjum, því stór hluti þeirra mun leggja upp laupana. Mikilvægast er þó að þau sem gera það ekki og dafna skila heildarfjárfestingunni margfalt til baka. Vísisjóðir  (e. venture capital funds) eru slíkir fjárfestar.

Mikilvægi vísisjóða

Rekstur vísisjóða á Íslandi á sér ekki langa sögu. Fram til ársins 2015 voru sjóðirnir fáir og stopulir, en þá voru þrír nýir sjóðir stofnaðir, með samanlagt 13 milljarða frá sínum fjárfestum. Í dag eru fimm vísisjóðir starfandi á Íslandi. Óhætt er að segja að stofnun þeirra hafi verið stórt þroskaskref fyrir bæði fjárfesta og íslensk frumkvöðlafyrirtæki. Samkvæmt mínum heimildum eru fleiri nýir sjóðir í farvatninu.

Langstærstu fjármagnseigendurnir í vísisjóðunum á Íslandi, að NSA undanskildum, eru íslenskir lífeyrissjóðir. Skiljanlega. Þeirra fjárfestingu skal ekki taka sem sjálfsagðri og fyrir framsýni sína eiga þeir skilið hrós. Líkast til hefur það sjaldan verið mikilvægara að lífeyrissjóðirnir fjárfesti í vísisjóðum en nú. Fjöldi frambærilegra hugvitsdrifinna fyrirtækja fer vaxandi, ekki bara á Íslandi, heldur alls staðar í kringum okkur. Vísisjóðir hafa ólíka sýn og nálgun á mismunandi geira og sá fjölbreytileiki er nauðsynlegur til að ná árangri. Að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni og lágmarka þannig fjárfestingaáhættuna.

Auka þarf vísifjármagn

Það sem er sameiginlegt með öllum þeim fyrirtækjum sem hafa verið nefnd hér að ofan er að ekkert þeirra hefur nokkru sinni litið á Ísland sem sinn aðalmarkað. Öll eru þau “fæddir heimsborgarar” (e. born global) sem þróa sínar vörur frá upphafi fyrir alþjóðamarkað. Sá hængur er á að til þess að vaxa á alþjóðamarkaði þurfa hluthafar og fjárfestar síendurtekið að leggja fyrirtækinu til fjármagn. Og miklu af því. En ef vel gengur er uppskeran ríkuleg. Fjármagnið sem mun streyma til Danmerkur vegna Unity hleypur á tugum milljarða. Það fjármagn mun vonandi streyma inn í nýjar fjárfestingar í hugvitsdrifnum fyrirtækjum til að skapa nýtt virði og þekkingu.

Þar sem að íslenskir vísisjóðir hafa verið fáir eða engir fram til ársins 2015 er engin furða að fleiri stór, alþjóðleg hugvitsdrifin fyrirtæki hafi ekki komist á flug á Íslandi. Fjármagnið hefur einfaldlega verið of takmarkað í sérhæfðum fjárfestingum (vísisjóðum) og erlend tengsl og þekking fjárfesta á að styðja fyrirtæki á alþjóðamarkaði lítil þó hún fari ört vaxandi. Þetta er mjög skýrt í fréttum undanfarið, sérstaklega í tilfelli GRID, Kerecis og Avo, sem fá nú fyrst og fremst fjármagn frá erlendum fjárfestum. Íslenskir vísisjóðir þurfa þannig bæði að vera stærri til þess að betur geta fylgt eftir sínum fjárfestingum og sérhæfðari þegar kemur að geirum til þess að geta aðstoðað fyrirtækin betur á leiðinni. Eftirfylgni íslenskra vísisjóða myndi líka tryggja að virðisaukningunni yrði skilað aftur heim en sitji ekki eftir hjá erlendum fjárfestum. Stærð og sérhæfing vísisjóða laða bæði að áhugaverð fyrirtæki, erlenda vísisjóði og aðra sérhæfða fjárfesta í samstarf.

Íslenskir lífeyrissjóðir geta þannig stutt enn frekar við að skapa frekara bolmagn fyrir vísisjóði til þess að fjárfesta í hugvitsdrifnum fyrirtækjum sem skapa þekkingu og verðmæti án þess að ganga á auðlindirnar. Þó fyrst og fremst til þess að ávaxta lífeyriseign landsmanna með besta móti.

Höfundur er sérfræðingur í nýsköpun.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.