Í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við undirritun kjarasamninga fyrir skömmu kom meðal annars fram að áhersla yrði lögð á minni verðbólgu og aukin lífsgæði. Í fyrsta sinn í manna minnum í stórum kjarasamningum er einnig ákvæði um aukna framleiðni. Í kjölfarið tilkynnti fjármálaráðherra Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir að komið yrði á laggirnar sérfræðingaráði með það markmið að stuðla að aukinni framleiðni í hagkerfinu. Þetta er mikilvægt áhersluatriði.

Áhersla á framleiðni er jafnvel enn mikilvægari þessi misserin í ljósi mikilla áskorana sem við stöndum frammi fyrir á Íslandi. Jarðhræringar sem ógna heilu bæjarfélögunum, langvarandi verðbólga og samdráttur í framleiðni seinni hluta síðasta árs draga fram miklar áskoranir fyrir stjórnvöld og fyrirtæki. Nú ber á umræðu víða um hvernig best sé að mæta þessari stöðu. Aukin skattlagning eða skuldasöfnun eru gjarnan nefnd sem lykil verkfærin. Undirrituð telja að svarið eigi að vera stórsókn til aukinnar framleiðni íslenskra fyrirtækja.

Velferð og lífskjör á Íslandi

Stig framleiðni er mikilvæg mælieining á stöðu og þróun hagkerfisins. Heildar útflutningstekjur Íslands námu 1.856 milljörðum árið 2023 samkvæmt nýbirtum tölum Hagstöfunnar. Eftir skarpan samdrátt í útflutningstekjum þjóðarbúsins yfir covid tíman fylgdi heilbrigður og kröftugur vöxtur og samfara óx tekjuöflun ríkisins umtalsvert. Á seinni hluta síðasta árs hinsvegar mældist aftur samdráttur víða í atvinnulífinu.

Í frekari sundurliðun á tölum Hagstofunnar kemur þó í ljós sú jákvæða staða að útflutningur er að verða fjölbreyttari og eru nú fleiri stoðir og fleiri fyrirtæki sem leggja sitt af mörkum til útflutnings þjóðarinnar. Grunnur til vaxtar er því breiðari. Innlend verðmætasköpun er síðan það sem leggst til innlendra framleiðsluþátta, sem eru til einföldunar helst laun og hagnaður. Þetta eru þeir þættir sem standa undir meirihluta af skatttekjum ríkisins. Á þessum þáttum byggja velferð og lífskjör á Íslandi.

Stöndum saman

Skynsamlegasta og kraftmesta leiðin til að bæta lífskjör á Íslandi er því að auka framleiðni fyrirtækja og hins opinbera á Íslandi. Alltof lítil umræða hefur átt sér stað hér á landi um mikilvægi framleiðni og framleiðnivaxtar. Vert er að rifja upp lykilskilaboð úr skýrslu McKinsey sem unnin var fyrir stjórnvöld árið 2012 um hvernig hægt væri að tryggja langtímahagvöxt á Íslandi. Markmiðið er að skapa aukin verðmæti á hverja vinnustund. Þetta er enn stóra áskorunin.

Leggjum þessu lið og stöndum saman um að auka framleiðni íslenskra fyrirtækja og mætum þannig fyrrnefndum áskorunum. Lærum hvert af öðru, sækjum fram í rannsóknum og þróun, eflum samkeppnishæfni Íslands, nýtum tæknina, og aukum fræðslu um árangursríkar aðferðir. Með sókn á þessu sviði getum við vonandi forðast auknar lántökur eða skattheimtu og bætt lífskjör á Íslandi.

Höfundar eru Ásta Sigríður, forstjóri Festi, Helgi Rúnar, forstjóri 66°Norður, Sveinn, forstjóri Embla Medical hf (Össur hf) og Tryggvi, formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins.