Sumarið 2018 mun seint hverfa úr manna minnum. Á þessu 100 ára afmæli fullveldis Íslands var jafngamalt rigningarmet slegið. Þurrkatíð er því ekki eitthvað sem fyrst kemur upp í huga landsmanna þegar litið verður um öxl.

Þurrk er þó að finna á öðrum vígstöðvum en í veðurkortunum. Þurrkur þessi var fyrirsjáanlegur þegar ljóst var að lífeyrissjóðirnir myndu flytja fjárfestingar sínar úr landi og bera verðbréfamarkaðir þess nú merki. Þá eru innflæðishöft Seðlabankans ekki að hjálpa til. Á sama tíma er farið að hægja á þeim hraða uppgangi sem verið hefur í hagkerfinu. Engum ætti að dyljast að sterk staða Íslands er að mestu tilkomin vegna þess að útflutningsgreinar hafa náð að blómstra og byggja upp kaupmátt innanlands án þess að hann væri tekinn að láni. Ferðaþjónustan sem áður var lítil og krúttleg atvinnugrein skilar nú næstum því 9% af allri verðmætasköpun hagkerfisins og er orðin ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Það er því áhyggjuefni að horfa til þróunar á gengi Icelandair, eins stærsta ferðaþjónustufyrirtækis landsins, en lakari afkoma félagsins hefur m.a. verið rakin til íþyngjandi launakostnaðar og gengisstyrkingar krónunnar.

Það blasir við að þær aðstæður sem nú eru uppi ganga ekki til lengdar, útflutningsgreinar verða einfaldlega undir í verðsamkeppninni. Launakostnaður íslenskra fyrirtækja er einn sá hæsti í Evrópu og mun sliga mörg fyrirtæki þegar umsvifin dragast saman. Nú þegar hafa innlend framleiðslufyrirtæki boðað verðhækkanir vegna íþyngjandi launakostnaðar og önnur fylgja væntanlega í kjölfarið. Á sama tíma eru harðar kjaradeilur boðaðar í vetur. Seðlabankinn mun við þessar aðstæður viðhalda háum vöxtum í skjóli stífra innflæðishafta, viðbrögð sem gera ekkert annað en að auka á vandann. Það sorglega við þá stöðu sem nú er uppi er að þetta er heimatilbúinn vandi.

Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.