Uppi var fótur og fit á Alþingi í síðustu viku. Mótmælandi klifraði yfir handrið þingpallanna og hrópaði að Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra við upphaf umræðu um frumvarp um útlendingamál.

Sjónarhorn Ríkisútvarpsins á atburðarásina var nokkuð sérstakt. Í frétt á vef Ríkisútvarpsins segir:

„Nokkuð uppnám varð í þingsalnum eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi, sem Höskuldur Kári Schram fréttamaður tók og var mótmælandinn hætt kominn þegar þil úr svölunum féll niður í þingsalinn.”

Þingsalurinn var eðli málsins samkvæmt þétt setinn af þingmönnum. Fréttamaðurinn taldi þá ekki hafa verið í neinni hættu að fá þilið sem féll úr svölunum á sig…

***

Ásta Hlín Magnúsdóttir fréttamaður reyndi svo að gera framgöngu þingmannanna Ásmundar Friðrikssonar og Eyjólfs Ármannssonar tortryggilega í hádegisfréttum RÚV á þriðjudaginn í síðustu viku. Spurði hún Birgi Ármannsson þingforseta sérstaklega út í það að þingmennirnir tveir höfðu tekið upp myndskeið af uppákomu mótmælandans á síma sína og birt á samfélagsmiðlum.

Sem kunnugt er þá eru myndatökur almennt séð bannaðar í þingsal. Birgir svaraði spurningu fréttamannsins ágætlega og sagðist frekar hafa haft áhyggjur af þinghelgi en myndatökum einstakra þingmanna við þessar aðstæður. Fréttamaðurinn minntist ekkert á þá staðreynd að annar fréttamaður RÚV hafi tekið upp myndband af atburðinum á síma sinn eins og fram kemur í tilvitnuninni hér fyrir ofan. Birti Ríkisútvarpið það margsinnis á vef sínum og í sjónvarpi.

***

Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigjendasamtakanna, birti furðulega grein á Vísi þann 5. mars. Guðmundi er mikið niðri fyrir og segir leigusala gera „sturlaðar“ arðsemiskröfur sem grafa undan lífskjörum leigjenda. Guðmundur fær það út að arðsemiskrafa leigusala sé „sturluð“ sérstaklega miðað við kröfuna sem það annálaða hófsemdarfólk sem geymir sparnað sinn í hlutabréfum gerir. Guðmundur segir í grein sinni:

„Arðsemi af útleigu leiguhúsnæðis í formi leigugreiðslna hefur undan farin ár verið á bilinu 6-7% af virði húsnæðis, á meðan að arðsemi af fjárfestingunum í hlutabréfum hefur verið í kringum 0,4-0,7% af virði þeirra.“

Og hann heldur áfram:

„Það virðist vera fullkomið samkomulag um að fjárfestar á hlutabréfamarkaði geri ekki meiri kröfur en um 0,4-0,7% árlegar arðgreiðslur frá fyrirtækjum eða verðbréfasjóðum. Að minnsta kosti hefur engin krafa orðið uppi um að tífalda verði upphæðir þeirra, þó að fjármagn á bakvið virði og arð af hlutabréfum séu verðmætaskapandi stórfyrirtæki og stærstu peningaöfl í landinu.“

Nú er ekki gott að átta sig á hvaðan Guðmundur fær þær upplýsingar að á hlutabréfamarkaðnum ríki heiðursmannasamkomulag um að arðgreiðslur megi ekki vera hærri 0,7% af einhverri tölu sem formaður Leigjendasamtakanna gerir ekki frekari grein fyrir. En þær eru ekki réttar.

Hlutafjáreigendur gera ekki tæplega eins prósenta ávöxtunarkröfu á fjárfestingar sínar. Að sama skapi dettur fæstum í hug að það sé merki um sturlunarástand og græðgi að ætlast til sambærilegs ávinnings af útleigu húsnæðis og að leggja peninga inn á bankabók.

Formaður Leigjendasamtakanna er því á hálum ís. Þrátt fyrir það mætti hann galvaskur í morgunútvarp Rásar 2 daginn eftir að greinin birtist á Vísi. Þar endurtók hann þessa möntru um að leigusalar geri tíu sinnum hærri arðsemiskröfu en hlutafjáreigendur í Kauphöllinni án þess að þáttastjórnendum hafi dottið í hug að eitthvað gæti verið bogið við þessa framsetningu.

***

Það verður að teljast sérstakt þegar forsvarsmenn fyrirtækja sem hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum þurfa að bera sig sérstaklega eftir því að þeirra sjónarmið heyrist. Þetta þurftu þó forsvarsmenn Sóltúns að gera en fjallað hefur verið um málefni félagsins í Heimildinni og svo í Silfrinu á RÚV í síðustu viku. Forsvarsmennirnir þurftu að leita til Morgunblaðsins þar sem hinir fjölmiðlarnir höfðu ekki áhuga á að heyra þeirra hlið á þeim málum sem voru til umfjöllunar.

Í frétt Baldurs Arnarsonar blaðamanns sem birtist í Morgunblaðinu á laugardag segir:

Af því tilefni óskuðu fulltrúar Sóltúns eftir viðtali við Morgunblaðið til að fá tækifæri til að koma að sinni hlið máls-ins, sem ekki hefði komið fram, og leiðrétta helstu rangfærslur.

Þau segja Heimildina ekki hafa gefið fulltrúum Sóltúns tækifæri til að segja sína hlið á málinu nema að litlu leyti. Þá hafi Silfrið ekki leitað til þeirra heldur aðeins endurtekið atriði úr umfjöllun Heimildarinnar.

Í Heimildinni er því haldið fram að eftir að Sóltún seldi fasteign sína í Sóltúni hafi félagið þurft að greiða nýjum eiganda, Regin, leigu og það leitt til þess að hagnaður snerist í tap. Það er svo sagt hafa bitnað á aðbúnaði starfsmanna og íbúa.

Þórir Kjartansson, stjórnarmaður í Sóltúni, segir því ranglega haldið fram í Heimildinni að félagið Öldungur hafi greitt tvo milljarða út úr rekstri hjúkrunarheimilisins sem arðgreiðslu við sölu fasteignarinnar. Það sé líka alrangt að salan hafi bitnað á rekstrinum og það óbeint leitt til uppsagna.

„Varðandi meinta arðgreiðslu úr rekstri hjúkrunarheimilisins Sóltúns þá er það einfaldlega ekki rétt. Hið rétta er að það hafa aldrei verið greiddar arðgreiðslur út úr rekstri félagsins í 22 ára sögu þess. Það er hins vegar rétt að í samningnum við ríkið lögðum við til þetta glæsilega hús og útveguðum allt það fjármagn sem var lagt í að byggja það. Húsið er á eftirsóttum stað og það er búið að byggjast upp flott hverfi hér í kring. Þannig að árið 2020 ákváðum við einfaldlega að þá væri góður tímapunktur til að selja húsið, eftir að hafa átt það í meira en 20 ár. Þetta var á ágætis tíma og við fengum ágætis verð sem við erum sátt við og seldum þar með húsið,“ segir Þórir.”

Þá er í umfjöllun Morgunblaðsins rætt um fleira sem orkar tvímælis í umfjöllun Heimildarinnar um málefni félagsins og vekur athygli ef fullyrðing um að blaðið hafi haft takmarkaðan áhuga á þeim skýringum á við rök að styðjast.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum pistlum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 13. mars 2024.