*

mánudagur, 25. október 2021
Pétur Blöndal
13. september 2016 14:02

Hversu mikið er endurunnið af áli?

„Til að endurvinna ál þarf einungis um 5-8% af orkunni sem fór í að framleiða það í fyrsta skipti, sem þýðir að í endurvinnslunni felst fjárhagslegur hvati. “

Haraldur Guðjónsson

Það er staðreynd að ál er á meðal þeirra málma sem eru mest endurunnir. Það er ein ástæðan fyrir því að stundum er talað um ál sem „grænan málm“. Í skýrslu SÞ frá 2011 kemur fram að af 60 málmtegundum voru aðeins 18 með endurvinnsluhlutfall yfir 50% og er álið þeirra á meðal.

Til marks um það má nefna að í Evrópu fara um 90% af öllu áli til endurvinnslu sem notað er í byggingariðnaði og í farartæki. Endurvinnsluhlutfall drykkjardósa er yfir 71,3% í Evrópu, en Evrópsku álsamtökin stefna á að ná því hlutfalli í 80% árið 2020. Í Bandaríkjunum er það hlutfall 64,3% sem þýðir að 64,8 milljarðar áldósa eru endurunnir og eru áldósir endurunnar í mun meira mæli en drykkjarumbúðir úr gleri eða plasti.

Það varðar einnig miklu að tekist hefur að loka hringnum, þannig að notaðar áldósir eru almennt nýttar til framleiðslu á nýjum – og hefur stundum verið talað um að það líði sex vikur þar til þær eru aftur komnar í búðarhillur. Fyrir vikið er endurvinnsluhlutfall áls við framleiðslu á áldósum um 70% eða þrefalt það sem við á um gler og plast.

Ein meginástæðan fyrir þessu háa endurvinnsluhlutfalli er að ál hefur það umfram flest önnur umbúðaefni að hægt er að endurvinna það aftur og aftur án þess að það tapi upprunalegum eiginleikum sínum. Fyrir vikið fellur það undir skilgreiningu Metal Packaging Europe á varanlegu efni eða „permanent material“. Það er ekki tilviljun að þegar kvikmyndin Noah var forsýnd hér á landi buðu hinirumhverfisvænu aðstandendurmyndarinnar eingöngu upp á
drykki úr áldósum, af því að þær væru umhverfisvænstar.

Til að endurvinna ál þarf einungis um 5-8% af orkunni sem fór í að framleiða það í fyrsta skipti, sem þýðir að í endurvinnslunni felst fjárhagslegur hvati. Það er einmitt þessi fjárhagslegi ávinningur við endurvinnslu áls sem gerir fjölmörgum litlum og meðalstórum fyrirtækjum í endurvinnslugeiranum kleift að standa á eigin fótum – og stendur í raun straum af endurvinnslu á öðrum efnum. 10,5 milljónir tonna af áli voru endurunnar árið 2014 og væri það nægur efniviður í 63 þúsund farþegaþotur, að því er fram kemur í útgáfu Evrópsku álsamtakanna.

Þegar horft er til þeirrar orku sem sparast við þá endurvinnslu jafngildir það því að farþegaþota fljúgi 46 þúsund ferðir umhverfis jörðina. Þar sem losun gróðurhúsalofttegunda við álframleiðslu er mest við orkuvinnsluna sjálfa, þarf vart að orðlengja hversu mikið dregur úr losuninni við endurvinnslu áls.

Álið hefur leikið aðalhlutverk í endurvinnslubyltingu síðustu áratuga. Þau álfyrirtæki sem starfa á Íslandi hafa beitt sér fyrir endurvinnslu, m.a. í gegnum evrópsku álsamtökin, og staðið fyrir átaksverkefnum um söfnun og endurvinnslu áls víða um heim. Á heimasíðu Samáls má fræðast nánar um endurvinnslu áls og lesa skýrslu Evrópsku álsamtakanna um endurvinnslu áls, vegvísi að sjálfbæru efnahagslífi. Á næstu vikum verður á þessum vettvangi svarað spurningum um áliðnað. Þeim sem eru með ábendingar eða vilja koma að spurningum er bent á að senda höfundi tölvupóst í netfangið pebl@samal.is.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda.

Stikkorð: Ál Samál umhverfisvænt
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.