*

miðvikudagur, 22. september 2021
Óðinn
10. ágúst 2020 07:02

Icelandair og vinnudeilur

Óðinn spáir því að atvinnurekendur muni í fyrsta sinn í langan tíma svara af krafti fráleitum kröfum launþegasamtaka.

Aðsend mynd

Óvissan í íslensku efnahagslífi hefur aukist mikið eftir að kórónuveiran tók sig upp að nýju. Á þessari stundu vita sérfræðingar okkar í sóttvörnum ekki hvort þetta er ný bylgja veirunnar en sannarlega er ástæða til að hafa áhyggjur. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir benti á ákaflega mikilvægt atriði í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins á Rás 2 á þriðjudag.

„Ég hef stungið upp á því við stjórnvöld að settur verði á laggirnar samstarfsvettvangur um hvernig við ætlum að hafa þetta næstu mánuði og ár." Þórólfur hélt áfram. „Núna er þetta meira en bara sóttvarnamál. Það eru fleiri sem þurfa að koma að borðinu og það þarf að taka tillit til ýmissa sjónarmiða. Mín sjónarmið eru fyrst og fremst sóttvarnasjónarmið og ég mun áfram halda þeim á lofti en þetta er pólitískt mál, þetta er efnahagslegt mál og alls konar viðhorf."

                                                                     ***

Icelandair og samningsstaðan

Umræðan um Icelandair undanfarnar vikur hefur á stundum verið óskiljanleg. Og er af mörgu að taka. Eftir að flugfreyjur felldu kjarasamninginn í byrjun júní var augljóst að það gætti verulegs misskilnings meðal flugfreyja um stöðu efnahagsmála, stöðu Icelandair og ekki síst samningsstöðu þeirra sjálfra. Staðan hafði algjörlega snúist við. Samningsstaða flugfreyja var allt í einu orðin engin vegna þess að gjaldþrot blasti við flugfélaginu.

Þangað til sú staða kom upp má segja að samningsstaða félagsins gagnvart F stéttunum þremur, flugmönnum, flugfreyjum og flugvirkjum, hafi verið engin. Því hver um sig gátu stéttirnar stórskaðað starfsemi félagsins með hótun um vinnustöðvun og þar með valdið félaginu gríðarlegu fjárhagstjóni. Og þetta gerðu stéttirnar þrjár reglulega frá því að félagið var endurreist árið 2009.

                                                                     ***

Á endanum gafst Icelandair upp á tilraunum til að semja, sleit viðræðum og sagði öllum flugfreyjum upp. Þá kröfðust flugfreyjur afskipta ríkisstjórnarinnar og sögðu þetta brot á öllum reglum á vinnumarkaði. Lára V. Júlíusdóttir, lögmaður, fyrrverandi lögfræðingur Alþýðusambandsins og kennari í vinnurétti við Háskóla Íslands, var þá spurð af mbl. is hvort hún teldi að í aðgerðum Icelandair fælust einhver lögbrot. Hún taldi svo ekki vera.

                                                                     ***

Þá mætti hin vanstillta Sólveig Anna Jónsdóttir Múla Árnasonar á svæðið og sagði í fésbókarfærslu að Lára talaði „úr hliðarveruleika hinna auðugu" og að um „ömurlegt þvaður í ruglaðri manneskju" væri að ræða. Heldur einhver vinnuveitandi í landinu að hægt sé að semja við fólk eins og Sólveigu? Hún og hennar líkar eru efnahagslegir hryðjuverkamenn. Þessi hryðjuverk munu koma verst niður á þeim sem síst skyldi, þeim lægst launuðu.

                                                                     ***

En hvað með dagpeningana?

Umræðan um launakjör starfsmanna Icelandair hefur verið mjög ónákvæm. Fjölmiðlum hefur ekki tekist að flytja fréttir með nákvæmar upplýsingar um launakjör einstakra starfsstétta. Það gætu þó komið fram einhverjar gagnlegar upplýsingar í lýsingu vegna hlutfjárútboðs félagsins. Eitt er afar eftirtektarvert í umræðunni um launakjör flugstétta Icelandair. Það eru dagpeningarnir. Flugmenn og flugfreyjur fá dagpeninga hvort sem þeir yfirgefa flugvélina eður ei.

Það er að segja, flugliðarnir fá dagpeninga á öllum ferðum sínum hvort sem þeir hafa kostnað af ferðalaginu eða ekki. Þetta er aldrei talið til kjara þeirra þótt allir viti að þessar skattfrjálsu greiðslur lyfti endurgjaldinu fyrir vinnuna verulega. Ekki síst vegna þess að á Íslandi eru jaðarskattar mjög háir og því má í nær öllum tilfellum setja tvöfalda dagpeningaupphæðina og fá út launahækkunina. Af hverju er þetta ekki tekið með í reikningsdæminu?

                                                                     ***

Þegar best lét, eða öllu heldur mest lét, voru starfsmenn Icelandair rúmlega 4.000. Óðinn er sannfærður um að langflestir starfsmenn félagsins hafi lagt sig mjög fram í vinnu sinni og verið öflugir starfskraftar. Nú deila Icelandair og flugfreyjur um það hvort endurráða eigi flugfreyjur eftir aldri. Icelandair segist ætla að líta til aldurs og frammistöðu en flugfreyjur vilja að aðeins sé litið til aldurs. Nei, nei, ekki þær yngstu fyrst, heldur þær elstu. Þetta er óskiljanleg afstaða. Hvað segir okkur að aldur ráði nokkru um frammistöðu í starfi? Ekkert. Þetta eru einfaldlega forréttindi eldri flugfreyja á kostnað hinna yngri sem engin rök eru fyrir.

                                                                     ***

Formerkin hafa breyst

Launakjör launþega á Íslandi eru með því besta sem þekkist í heiminum. Það eru sterkar vísbendingar um að fyrirtækin í landinu standi ekki undir þessum háu launum. Óðinn telur það reyndar augljóst. Forsvarsmenn fyrirtækja og eigendur þeirra hafa verið mjög linir í samningaviðræðum um langt skeið við verkalýðshreyfinguna. Ekki hefur hjálpað til að ríkið leiddi um skeið launahækkanir í landinu. Þá gleymdist virði starfsöryggisins en Óðinn hefur ekki enn séð einn opinberan starfsmann missa vinnuna í mestu kreppu sem hefur tekið á okkur hús í meira en öld.

                                                                     ***

En meginástæðan fyrir eftirlátssemi forsvarsmanna fyrirtækja er sú að verkföll geta skaðað fjárhag og viðskiptasambönd fyrirtækja til langs tíma, fyrir utan auðvitað að rústa kennitölunum í rekstrinum til skamms tíma. En það eru blikur á lofti. Í dag eru kennitölurnar í rúst, viðskiptasamböndin í uppnámi og fjárhagurinn sömuleiðis. Það er óumflýjanlegt að laun munu lækka. Það kann að vera að það gerist ekki í kjarasamningum, enda er fjarri því að launataxtar fari alltaf eftir þeim. Heldur munu launin lækka með uppsögnum og endurráðningum eða samningi milli atvinnurekanda og launamanns.

                                                                     ***

Óðinn spáir því að á komandi mánuðum muni atvinnurekendur í fyrsta sinn í langan tíma svara af krafti fráleitum kröfum launþegasamtaka. Það er í það minnsta tímabært. En auðvitað munu allir sæmilega þenkjandi atvinnurekendur áfram vilja greiða eðlilegt endurgjald fyrir vinnu launþegans, því þeim er ljóst að það skiptir máli. Mjög miklu máli.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.