*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Örn Arnarson
13. desember 2019 09:36

Sjóðfélagalán óháð neytendalánalögum

„Þar sem lífeyrissjóðir búa ekki við sama íþyngjandi skattaumhverfi og aðrir lánveitendur á borð við innlánastofnanir (bankana) hafa þeir getað boðið betri kjör og fengið til sín traustustu lántakendurna úr ranni bankanna.“

Haraldur Guðjónsson

Þegar lögum um fasteignalán til neytenda var breytt árið 2016 varð óheimilt að binda samninga um fasteignalán því skilyrði, að gera yrði samning um kaup á annarri aðgreindri fjármálaþjónustu. Á mannamáli þýðir þetta að bannað var að setja það sem skilyrði fyrir veitingu fasteignaláns í banka að viðkomandi þyrfti að að færa launareikning sinn með öllum öðrum tilheyrandi umsvifum til þess sama banka.

Þessi breyting ásamt öðrum mikilvægum úrbótum á borð við afnám stimpilgjalda og verulegum takmörkunum á uppgreiðslugjöldum gjörbreytti stöðu neytenda á fasteignalánamarkaði til hins betra. Þessar breytingar hafa leitt til þess að kostnaður heimila við að endurfjármagna íbúðalán sín er óverulegur.

Þetta er ástæðan fyrir að heimilin hafa til dæmis getað nýtt sér mikla sókn lífeyrissjóðanna inn á fasteignalánamarkaðinn á undanförnum árum. Þar sem lífeyrissjóðir búa ekki við sama íþyngjandi skattaumhverfi og aðrir lánveitendur á borð við innlánastofnanir (bankana) hafa þeir getað boðið betri kjör og fengið til sín traustustu lántakendurna úr ranni bankanna. Þeir eru í raun og veru að fleyta rjómann af fasteignalánamarkaðnum þar sem hærri kröfur þeirra um eigið fé lántaka þýðir í raun að aðeins eignamestu heimilin geta fjármagnað fasteignalán sín hjá lífeyrissjóðunum.

Það sem er ef til vill undarlegast við þetta allt saman er að lífeyrissjóðunum er heimilt að krefjast þess að samningar um fasteignalán séu bundnir því skilyrði að lántakinn geri samning um kaup á annarri aðgreindri fjármálaþjónustu, því flestir lífeyrissjóðir gera það að skilyrði að sá sem tekur sjóðfélagalán hjá þeim þurfi að hafa greitt til þeirra iðgjöld í tiltekinn tíma. Fyrir þessu er engin rök sem tengjast áhættustýringu sjóðanna og þar af leiðandi stórundarlegt að Samkeppniseftirlitið hafi ekkert við þetta að athuga.

Höfundur er sjálfstætt starfandi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.