Hrafnarnir furða sig á fullyrðingum frelsisblysa stjórnarandstöðunnar á borð við Oddnýju Harðardóttur og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttir um að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi gerst sekur um lögbrot. Brotið á að vera gegn 4. grein laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum þar sem ráðherra fór ekki yfir hvert og eitt tilboð og samþykkti eða eftir atvikum hafnaði.

Hrafnarnir vita eins og aðrir að ráðherra fór ekki heldur yfir persónulega þau tugþúsunda tilboða sem bárust í bankann þegar hann var skráður á markað í fyrra. Ekki muna þeir heldur eftir því að stjórnarandstaðan hafi kvartað yfir því. Ef til vill ættu þingmennirnir að lesa greinargerðina með lögunum áður en þeir saka andstæðinga sína um lögbrot en þar stendur til að mynda: „Gert er ráð fyrir að ráðherra geti falið Bankasýslu ríkisins að annast endanlegan frágang vegna sölu eignarhluta."

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .