Málefni fasteignamarkaðarins brenna á Íslendingum sem aldrei fyrr. Viðvarandi hækkanir fasteignaverðs og lóðaskortur eru mikið til umræðu á vettvangi fjölmiðla og stjórnmála. Gera má ráð fyrir krafturinn í umræðunni vaxi enn frekar þegar nær dregur sveitastjórnarkosningum enda hafa lóðamál og byggingamagn í burðarliðnum verið í brennidepli í þessu samhengi.

Áhugaverð frétt birtist í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins sunnudaginn 13. mars. Þar kom fram að Bjarg íbúðafélag hefði þurft að skila inn stofnframlögum vegna þess að lóðir þar sem byggja átti eru ekki tilbúnar. Rætt var við Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, í fréttinni og þar sagði hann eftirfarandi:

Hjá Bjargi íbúðafélagi, erum við að byggja fyrir tekjulægsta fólkið. Við erum að skila inn fjármagni eða stofnfjárframlögum vegna þess að við fáum ekki lóðir eða vegna þess að lóðirnar sem við höfum fengið eru ekki tilbúnar og verða ekki tilbúnar fyrr en eftir nokkur ár .“

Spurningarnar sem fréttamaður RÚV leitaði ekki svara við og eru augljósar lúta að því hvað útskýri töfunum við afhendingu þessara lóða og hvar þær eru staðsettar. Þessar spurningar eru ekki síst áleitnar sökum þess að Bjarg sérhæfir sig í byggingu og útleigu á íbúðum til lágtekjufólks sem flestir eru sammála um að standi hvað höllustum fæti á fasteignamarkaði um þessar mundir.

Á heimasíðu Bjargs má finna upplýsingar um hvaða framkvæmdir eru í undirbúningi og eru væntanlega að frestast vegna þess að lóðirnar eru ekki til. Um er að ræða framkvæmdir við 245 íbúðir og eru 210 af þeim á lóðum í Reykjavík. Nánar tiltekið í Skerjafirði, Árbæ, Seljahverfi og við Háaleitisbraut. Það væri ákaflega fróðlegt og gæti veitt innsýn í ástæður þess af hverju uppbygging á íbúðarhúsnæði gengur hægt ef fjölmiðlar kanna þetta mál ofan í kjölinn.

***

Þessu tengt: Í kjölfar vaxtahækkunar Seðlabankans í febrúar fóru leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar og stjórnmálamenn mikinn og lýstu mikilli neyð sem á að ríkja á fasteignamarkaðnum. Kallað var eftir beinum aðgerðum stjórnvalda á borð við hækkun vaxtabóta. Það var því fróðlegt að sjá frumniðurstöðu lífskjararannsóknar Hagstofunnar sem birt var í vikunni. Þar kom fram að hlutfall þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman hefur aldrei mælst jafn lágt. Í tilkynningu Hagstofunnar segir:

Þegar á heildina er litið átti 24,1% heimila á Íslandi erfitt með ná endum saman árið 2021. Aldrei áður hefur hlutfallið mælst jafnlágt. Þessar niðurstöður eru að einhverju leyti í samræmi við tölur Hagstofunnar um kaupmátt ráðstöfunartekna heimila en hann jókst á sama tímabili. Til samanburðar átti um 51% heimila í erfiðleikum með að ná endum saman árið 2011 og var hlutfallið yfir 40% á milli áranna 2010 og 2015 .“

Í fyrstu virðist þessi niðurstaða ekki ætla að vekja jafn mikla athygli fjölmiðla og aðrar nýlegar rannsóknir á högum almennings.

***

Það er enginn skortur á fólki sem kýs að fiska í gruggugu vatni þegar kemur að umræðu um sjávarútvegsmál. Einnig má sjá þess merki í fréttaflutningi. Á undanförnum misserum hefur borið á því að miðlar leggi áherslu á að draga fram hversu mikið einstaka útgerð greiðir í veiðigjald þegar fjallað er um ársuppgjör þeirra.

Þannig virðist Kjarninn, svo dæmi sé tekið, vinna með staðlaða fyrirsögn í þessum efnum. Vefritið fjallaði um afkomu Brims og Síldarvinnslunnar – sem eru einu útgerðirnar sem eru skráð í Kauphöllina – undir eftirfarandi fyrirsögnum:

Brim hagnaðist um ellefu milljarða króna en greiddi um 900 milljónir króna í veiðigjöl d“

Síldarvinnslan hagnaðist um 11,1 milljarða króna en borgaði 531 milljón króna í veiðigjald

Gallinn við þessa framsetningu er að ekki eru tengsl við afkomu ársins 2021 og upphæð veiðigjalda sem útgerðirnar greiða á því rekstrarári. Veiðigjöld hafa sveiflast talsvert á undanförnum árum en það er sökum þess að þau eru afkomutengd með tveggja ára töf. Þannig taka veiðigjöld ársins 2021 mið af afkomu greinarinnar árið 2019. Þar af leiðandi er undarleg framsetning að fjalla um afkomu útgerðarinnar í fyrra með hliðsjón af veiðigjöldum sem voru greidd og miðast við afkomuna árið þar á undan.

***

Þrátt fyrir augljósa vankanta á þessari framsetningu virðist hún ekki vefjast fyrir stjórnmálamönnum sem hafa horn í síðu sjávarútvegsins. Þannig las Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, hreinlega upp framsetningu Kjarnans á afkomutölum Brims og Síldarvinnslunnar í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi á þriðjudag og harmaði það óréttlæti sem hann telur felast í því að ekkert samhengi er á milli afkomu ársins 2021 í sjávarútvegi og útreikninga á veiðigjöldum sem miðast við afkomuna árin á undan.

Rétt er að taka fram að þetta er ekki í fyrsta sinn sem mikill samhljómur er í fréttaflutningi Kjarnans annars vegar og svo framgöngu þingmanna Viðreisnar hins vegar. Eins og fjallað var um á öðrum vettvangi í Viðskiptablaðinu um miðjan janúar þá birtu Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, nánast samhljóma greinar undir sömu fyrirsögn með klukkustunda millibili. Eftir þessu var tekið en greinarnar tvær um hvernig kvótakerfið – hagræðingin sem því hefur fylgt auk sjálfbærni og arðsemi veiða og vinnslu – sé í raun uppspretta alls þess ranglætis sem finna má á Íslandi.

Það var Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, sem svaraði fyrirspurn Sigmars á þinginu þennan dag. Athygli vakti að ráðherrann hafnaði ekki kröfu Sigmars um hærri veiðigjöld og endurómaði fyrri ummæli um að grípa ætti sérstakrar skattlagningar af hálfu ríkisvaldsins þegar fyrirtæki skila hagnaði sem vex í augum ráðherrans. Þau ummæli vöktu ekki athygli annarra en Morgunblaðsins en aðrir miðlar fjölluðu um karpið og frammíköllin sem fylgdu í kjölfarið.

***

Skattlagning sjávarútvegsins og útreikningur veiðigjalda er auðvitað pólitískt hitamál sem fjölmiðlar fjalla eðlilega um. En gera verður þá kröfu að sú umfjöllun geri skýra grein fyrir staðreyndum á borð við þær að veiðigjald reiknast ekki út frá hagnaði síðasta rekstrarárs eins og fyrr segir. Og þá verður að halda þeirri staðreynd til haga að þegar rætt er um hagnað Brims og Síldarvinnslunnar í fyrra verður að taka tillit til þess að hann er ekki allur tilkominn vegna hefðbundins rekstrar. Þannig voru þrír milljarðar af 11 milljarða hagnaði Síldarvinnslunnar í fyrra tilkomnir vegna sölu á hlutabréfum í Sjóvá. Söluhagnaður eigna stóð einnig undir tæplega þremur milljörðum af 11 milljarða hagnaði Brims. Varla eru þingmenn að krefjast þess að veiðigjöld verði lögð á söluhagnað hlutabréfa og annarra eigna?

***

Að því sögðu ætti öllum vera ljóst að góð afkoma sjávarútvegsins á einu rekstrarári mun á endanum skila sér í hversu mikið útgerðin greiðir í veiðigjöld. Þetta ættu þingmenn og fjölmiðlamenn að gera sér grein fyrir. Standi vilji manna til þess að veiðigjöld séu reiknuð út með öðrum hætti og á öðrum forsendum þá er það önnur umræða.

Samkvæmt núverandi reiknireglu er veiðigjald þriðjungur af reiknistofni hvers nytjastofns og gjaldið er innheimt af hverju lönduðu kílói. Þessi útfærsla hefur því þær afleiðingar að sveiflur í veiðum hafa áhrif á veiðigjaldið sem greitt er til ríkisins. Flestir telja skynsamlegt að gjaldið sveiflist með afkomu greinarinnar. Þessi sveigjanleiki sést til að mynda þegar þróun bolfiskveiða er skoðuð. Veiðiráðgjöf hefur lækkað en að sama skapi hafa markaðir erlendis verið sterkir og það skilar sér í hærra veiðigjaldi á hvert veitt kíló en ella. Sama þróun er fyrirsjáanleg hvað loðnuveiðar varðar og búast má við að veiðigjald af loðnuveiðum verði hátt árið 2023. Þá miðast veiðigjaldið við loðnuvertíðina 2021. Þrátt fyrir að heildaraflinn hafi verið lítill í sögulegu samhengi fór stór hluti veiðinnar í frystingu til manneldis og hrognavinnslu.

Að lokum er brýnt að hafa í huga að veiðigjald er greitt vegna nýtingar fiskveiðiauðlindarinnar. Það er greitt fyrir þann hluta vinnslunnar sem snýr að því að draga fiskinn um borð. Veiðigjaldið er ekki innheimt af stærstum hluta virðiskeðjunnar sem nær til skurðar í bita og pökkunar til viðskiptavina. Það flokkast ekki undir auðlindanýtingu og hvað þá sala eigna sem litaði afkomu Síldarvinnslunnar og Brims í fyrra eða ráðstöfun fjármuna