*

fimmtudagur, 20. júní 2019
Þorkell Sigurlaugsson
3. september 2018 15:56

Lok á ritdeilu Jóns og Þorkels?

Það er augljóst og eðlilegt að Jóni þykir sárt hver örlög SH urðu, en í bókinni „Framtak við endurreisn“ var á engan hátt ætlað að fjalla um SH og hvernig því var stjórnað.

Á 50 ára afmæli SH var slegið á létta strengi. Starfsfólkið fékk eldhússvuntur, sem og Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra.
Aðsend mynd

Jón Ingvarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna (SH), hefur að undanförnu verið í undarlegum ritdeilum við undirritaðan um málefni SH á síðasta áratug síðustu aldar.

Ég hef tvívegis svarað þessum tveimur spurningum Jóns sem tengjast viðtali Viðskiptablaðsins við Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðing í tilefni af útgáfu bókarinnar „Framtak til endurreisnar“. Jón heldur samt áfram ómálefnalegri gagnrýni á undirritaðan. Það er dapurt þegar Jón er komin á það stig að tala um sögufalsanir og níðskrif af minni hálfu í sinn garð og SH.

Upphaf málsins má rekja til greinar sem Jón skrifaði í Viðskiptablaðið þann 17. maí þar sem hann ásakar Framtakssjóðinn og undirritaðan að hafa réttlætt okkar [slæmu] gjörðir varðandi Icelandic Group með því að fá Dr. Ásgeir Jónsson til að skrifa bók um afrek okkar. Jón gerir lítið úr starfi Framtakssjóðsins og undirritaðs og fullyrðir að sjóðurinn hafi á einhvern hátt gefist upp með rekstur Icelandic Group. Þetta eru hvoru tveggja öfugmæli, því stofnun og síðan rekstur Framtakssjóðsins er eitt árangursríkasta verkefni sem lífeyrissjóðirnir á Íslandi hafa tekist á hendur eftir bankahrunið og einstaklega vel tókst til með rekstur sjóðsins og sölu eigna Icelandic Group eins og annarra félaga í eigu sjóðsins.

Ég tók að mér að svara þessum tveimur spurningum Jóns og vera hans „málpípa“ eins og Jón kallar það:

  • Ég hef þakkað Jóni fyrir hönd Ásgeirs fyrir þá ábendingu að það hafi verið viðskiptavinir – og jafnframt eigendur SH – sem tóku afurðarlán en ekki sölusamtökin sjálf.
  • Ég hef það eftir Ásgeiri, og svara því til í greinum mínum þann 5. og 28. júlí, að hann kannist ekki við að hafa tjáð sig sem rekstur SH heldur aðeins rekstur Icelandic Group. Ásgeir bendir hins vegar á það í bók sinni – sem í blaðaviðtölum – að opnun utanríkisverslunarinnar og frjálst framsal kvóta eftir 1990 hafi orðið til þess að rekstrarerindi hinna gömlu þriggja sölusamtaka hafi þorrið og þau því öll horfið af sjónarsviðinu eða umbreyst verulega. Það eru þó alls ekki nýjar fréttir – heldur aðeins viðtekin sannindi bæði meðal fræðafólks sem og þeirra sem enn starfa í sjávarútvegi.

Það er augljóst og eðlilegt að Jóni þykir sárt hver örlög SH urðu, en í bókinni „Framtak við endurreisn“ var á engan hátt ætlað að fjalla um SH og hvernig því var stjórnað. Einnig undarlegt að tengja eitthvert viðtal við Ásgeir, starfsemi Framtakssjóðsins og undirritaðs hvað það varðar. Ergelsi Jóns ætti að snúa meira að þeim sem störfuðu með honum á tíunda áratugnum innan SH og urðu þess valdandi að hann þurfti að láta af stjórnarsetu í félaginu. Aðstæður breyttust og frumkvöðlar að stofnun félagsins seldu sinn hlut eða vildu fara aðrar leiðir í rekstri þess.

Það á vel við hjá Jóni að kalla síðustu grein sína „Sannleikanum verður hver sárreiðastur“. Það orðtak lýsir vel hugarangri Jóns, sem grípur til þess úrræðis að gagnrýna okkur Ásgeir ómaklega, en við erum einfaldlega að benda á þá miklu byltingu sem varð í sjávarútvegi á níunda og einkum tíunda áratug síðustu aldar. Þessi bylting hefur orðið til þess að verðmætasköpun hefur aukist verulega í greininni með því að stærstu sjávarútvegsfyrirtæki sjá sjálf um markaðssetninguna og ráða yfir allri virðiskeðjunni frá hafi til neytenda.

Rekstur Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna skipti sköpum í markaðssetningu, sölu og útflutningi sjávarafurða okkar Íslendinga frá stríðslokum og fram á síðasta áratug 20. aldar. Jón Ingvarsson var farsæll þátttakandi í því verkefni sem stjórnarformaður SH í um það bil 15 ár. Það liggur hins vegar nokkuð skýrt fyrir að SH í sínu gamla formi átti ekki erindi inn í 21. öldina. Áhugavert væri að skrá betur þá sögu enda nær ítarlegt sögurit þeirra Jóns Hjaltasonar, Hjalta Einarssonar og Ólafs Hannibalssonar um SH og dótturfélög þess í þremur bindum eingöngu til ársins 1996. Kynslóðaskipti, tæknibreytingar, kvótakerfið og nýjar áherslur í markaðsmálum umbyltu íslenskum sjávarútvegi og gerðu þá atvinnugrein arðbærari og í fremstu röð í heiminum hvort sem litið er til veiða, vinnslu eða markaðsmála.

Þetta verða mín lokaorð í þessari ritdeilu okkar Jóns nema einhverjir draugar eða uppvakningar láti á sér kræla í framhaldi af þessari minningargrein. Þá er til efniviður í meira. 

Höfundur er stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands og Icelandic Group.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is