Á mánudagsmorguninn átti ég að hitta mann. Klukkutíma fyrir fund afboðaði hann sig: Leikskólabörnin voru lent í sóttkví og hann fylgdi með.

Í byrjun vikunnar voru um 2.000 manns í sóttkví. Þar af um 400 börn vegna tíu smita á leikskólum og frístundaheimilum, sem sjálfkrafa kyrrsetja að auki í það minnsta einn forráðamann. Í næstu viku byrja svo grunnskólarnir og það er ekki nema von að ýmsir spyrji hvernig þetta eigi að geta gengið, sérstaklega þegar litið er til þess að það er ekki óþekkt að fólk eigi fleiri börn en eitt, í nokkrum skólum og á mismunandi skólastigum. Það má því auðveldlega sjá fyrir sér raðsóttkví foreldra og barna. Í öllu falli er ljóst að ef engu er breytt verður skólastarf, fjölskyldu- og atvinnulíf í uppnámi í vetur.

Þegar mest lét í júlí voru um 700 þúsund manns í sóttkví í Bretlandi, en það jafngildir rúmlega 3.600 einstaklingum hérlendis. Þetta hafði lamandi áhrif á ýmsa starfsemi, farið var að veita víðtækar undanþágur, og nú hafa bresk stjórnvöld tekið ákvörðun um að hætta að skikka fullbólusetta og börn í sóttkví. Látið er nægja að höfða til almennrar skynsemi, fólk hvatt til að gæta sín og forðast að umgangast einstaklinga í áhættuhópum. Vísað er til þess að bólusetningar verji gegn alvarlegum veikindum og nauðsynlegt sé að samfélagið geti gengið sinn vanagang. Ætla má að hvort tveggja eigi við hér líka. Það væri því bragur á að hérlend sóttvarnayfirvöld og önnur stjórnvöld slökuðu í það minnsta á kröfum um sóttkví barna.

Fyrsti póstur haustsins er kominn frá grunnskólanum – með ábendingum til foreldra um að kynna sér reglur um sóttkví. Má ég þá frekar biðja um lúsapóst.

Pistlahöfundur er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands