*

sunnudagur, 5. apríl 2020
Heiðrún Lind Marteinsdót
21. febrúar 2020 09:20

Mér líður best, illa

„Hinar efnahagslegu vörður okkur Íslendinga hverfa nú ein af annarri í holtaþoku.“

Haraldur Guðjónsson

Þegar þessi orð eru skrifuð er óvíst um loðnuvertíð. Annað árið í röð. En nú eru sex skip á sjó að leita og vonandi tekst að finna nógu mikla loðnu svo hægt verði að gefa út kvóta. Því það eru margir sem stóla á loðnuna. Ferðamönnum fækkar og óvíst er með framtíð álversins í Straumsvík. Svo er það pestin sem flæðir á milli heimsálfa.

Hinar efnahagslegu vörður okkur Íslendinga hverfa nú ein af annarri í holtaþoku. Höfum við séð þetta áður? já, ekki laust við það, en aðstæður til að takast á við mótlæti eru betri en oft áður. Það eru líka jákvæð teikn á lofti; sjávarútvegurinn og fiskeldi. Það er nú einu sinni þannig í heimi þar sem fólksfjölgun er um 200 þúsund manns á degi hverjum, þá þarf að útvega mat. Það er því bæði rétt og eðlilegt að horfa til útflutnings á sjávarafurðum og afurðum frá fiskeldi þegar þrengir að á öðrum sviðum.

Íslendingar eru mjög framarlega þegar kemur að sjálfbærri nýtingu á fiskistofnum og sú staða náðist með markvissum aðgerðum sem grundvölluðust á vísindum, en ekki tilfinningu. Þeirri stöðu verður að viðhalda. Þótt ýmsir vilji nú um stundir slá pólitískar keilur með því að boða stórfelldar breytingar á „kerfinu", eins og það er kallað, er rétt að staldra við og spyrja, viljum við geta treyst á sjávarútveginn eða viljum við setja umhverfi hans og afkomu í uppnám á sama tíma og sverfur að í íslensku efnahagslífs? Sumum finnst það ekki tiltökumál og má að sönnu segja að þar séu menn að leika sér með fjöreggið. Þá verður það kannski eins og kallinn sagði, mér líður best, illa.

Höfundur er framkvæmdastjóri SFS.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.