Eftir lægð faraldursáranna og full kröftuga viðspyrnu síðasta árs stóðu vonir margra til að árið sem er að líða myndi einkennast af ögn meira jafnvægi. Hvernig til tókst með það verður ekki útkljáð hér í þessum texta, en hvað sem því líður var nóg um að vera í viðskiptalífinu árið 2023. Hér að neðan má sjá þá leiðara sem voru í sætum 6-10 yfir mest lesnu leiðara ársins.

6. Virðingarleysi fyrir peningum og verðmætasköpun

Mikilvægi verðmætasköpunar og þess að að henni sé sem best hlúið var megininntak þessa leiðara, enda nokkuð óumdeilt að hún helst í hendur við lífsgæði. Þá var það rakið hvernig opinberum rekstri hefði vaxið fiskur um hrygg síðustu misseri og hvernig það ógnaði áðurnefndri verðmætasköpun hér á landi.

7. Stefnum flotanum í Kauphöllina

Ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að veita skráðum sjávarútvegsfélögum hærra þak á aflaheimildir en öðrum var viðfangsefni þessa leiðara.

8. Veiku mennirnir eru víða í Evrópu

Farið var yfir efnahagsvanda Evrópu og áhrif hans á Evrópusamrunann á vettvangi Evrópusambandsins.

9. Skuldadagar í Reykjavík

Þung staða í fjármálum og rekstri Reykjavíkurborgar var hér til umfjöllunar. Tilraun borgaryfirvalda til að fjármagna hallareksturinn með skuldabréfaútboði hafði þá nýlega gengið illa og ljóst lá fyrir að forsendur fjárhagsáætlunar ársins voru brostnar.

10. Sameining Kviku og Íslandsbanka

Þá nýhafnar samrunaviðræður Kviku og Íslandsbanka voru viðfangsefni þessa leiðara og vöngum velt yfir helstu rökum með og á móti slíkri ráðstöfun. Vendingar ársins áttu síðar eftir að knýja fram hlé á viðræðunum, og að lokum fór svo að þær hófust aldrei á ný.