Það voru 271 sem líkuðu við, settu ástarhjörtu eða umhyggjumerki á kveðjufærslu Sigurjóns Gunnarssonar á Workplace í Landsbankanum en hann lét af störfum hjá bankanum nú í desember eftir 50 ára farsælt starf. Engin var veislan að sinni. Myndir sem fylgdu með færslunni spönnuðu starfsævina og sýndu vel fjölbreytnina í starfinu. Sigurjón var (og er) sérfræðingur í vaxtaútreikningi og það er við hæfi að síðasta færsla Sigurjóns á Workplace, áður en hann setti inn kveðjufærsluna, var með fyrirsögninni: Landsbankinn lækkar vexti. Á borðinu mínu situr einmitt vaxtaákvörðun Landsbankans sem Sigurjón kom með til mín til undirritunar daginn sem hann hætti.

Vextir hafa lækkað sex sinnum á árinu
Þessi síðasta vaxtaákvörðun bankans var sú sjötta á árinu. Allar vaxtalækkanir Seðlabankans hafa leitt til vaxtalækkunar hjá viðskiptavinum Landsbankans, og bankinn lækkaði líka vexti þegar bankaskattur var lækkaður á árinu. Bankinn hækkaði einu sinni vexti en í því tilfelli var um að ræða beina afleiðingu af hækkandi langtímavöxtum sem hækkar fjármögnunarkostnað bankans. Töluvert var skrifað um þessa tilteknu breytingu sem snerist þó eingöngu um fasta vexti á nýjum íbúðalánum og hafði áhrif á útlán veitt í framtíðinni. Það eitt að hækka vexti olli sterkum viðbrögðum. Eftir breytinguna voru fastir vextir íbúðalána hjá bankanum síður en svo þeir hæstu á markaðnum og bankinn bauð áfram mjög samkeppnishæf kjör á íbúðarlánum.

Breyting á vöxtum hefur meiri áhrif
Flest fyrirtæki fjármagna sig með óverðtryggðum lánum með breytilegum vöxtum en einstaklingar eru því óvanari að fást við vaxtabreytingar. Ef stýrivextir hækka leiðir það fljótlega til þess að greiðslur af óverðtryggðum lánum með breytilegum vöxtum hækka. Fólk sem er með verðtryggð lán finnur minna fyrir vaxtabreytingum þar sem hækkunin dreifist yfir lánstímann. Þar sem mun fleiri eru nú með íbúðalán með breytilegum vöxtum munu vextir verða mjög virkt stýritæki á kaupmátt. Vaxtahækkanir bíta strax og því er mikilvægt að nýta tímabil þar sem greiðslubyrði er lægri til að leggja fyrir og eiga inni fyrir hækkunum. Ef kostnaður lánveitenda sem hefur áhrif á vexti hækkar, þurfa viðskiptabankar og aðrir sem veita útlán að hækka sína vexti til að mæta kostnaði og sitja þá oft undir ómálefnalegri gagnrýni. Til lengdar verður að verðleggja útlán með tilliti til þess kostnaðar og áhættu sem felst í að veita þau.

Vaxtamunur lækkar
Vaxtamunur Landsbankans hefur lækkað á árinu, enda ekki hægt að viðhalda óbreyttum vaxtamun þegar útlánavextir lækka og innlánavextir eru að nálgast núll, nema álag hækki og áhætta haldist á sama tíma óbreytt. Það verður krefjandi verkefni að ná áfram góðri arðsemi af bankarekstri í nýjum veruleika. Mikilvægt er að bankinn nái ásættanlegri ávöxtun á eigið fé og geti þannig fjármagnað sig til lengri tíma á góðum kjörum sem skilar sér áfram í bættum viðskiptakjörum. Vaxtamunur íslenskra banka er um það bil einu prósentustigi hærri en gerist og gengur hjá smærri bönkum á hinum Norðurlöndunum. Þótt hægt sé að lækka þennan mun verður ekki hægt að ná sömu stærðarhagkvæmni og þar, ekki frekar en í öðrum atvinnugreinum sem starfa í okkar litla hagkerfi. Ýmislegt má gera til að draga úr kostnaði, m.a. að vinna saman að rekstri innviða. Þá þarf að hafa í huga að hér eru gerðar ýmsar kröfur til banka, umfram það sem gert er annars staðar í Evrópu, sem valda því að kostnaður er hærri hér.

Miklar framfarir
En víkjum aftur að Sigurjóni, sem á sinni 50 ára starfsævi hjá Landsbankanum tók þátt í fjölmörgum breytingum á bankastarfsemi, frá handreikningi vaxta til rauntímainnleiðingar á nútíma greiðslukerfi. Þegar hann hóf störf hjá bankanum biðu konur, en þó aðallega karlar, fyrir utan dyr útibússtjóra eða bankastjóra og vildu spyrja hvort hægt væri að fá lán. Nú geta konur jafnt sem karlar fengið svarið við þessari spurningu á meðan beðið er eftir afgreiðslu á kaffihúsi. Og það tekur innan við 10 mínútur frá því fólk gerist viðskiptavinir bankans þar til glænýtt greiðslukort er komið í símann og hægt er að nota það til að greiða fyrir kaffibollann. Þú getur verið þinn eigin fjármálastjóri og lagað yfirdráttinn, sótt um og fengið lán, keypt í verðbréfasjóðum og margt fleira. Þetta er bankaþjónusta fyrir þig, fyrir litla fyrirtækið þitt eða íþróttafélagið sem þú ert gjaldkeri fyrir, allt þegar þér hentar og allt í símanum eða tölvunni.

Munum finna góða viðspyrnu
Ég er bjartsýn fyrir árið 2021. Þó svo að lokanir hafi haft alvarleg áhrif á fjölmarga einstaklinga og fyrirtæki þá hefur ýmislegt jákvætt gerst. Við eigum stórkostleg íslensk fyrirtæki sem eru meðal þeirra fremstu í heimi í sjávarútvegi og nýtingu sjávarfangs, í nýsköpun, í tækni og í lyfja- og heilsutengdri starfsemi, svo fátt eitt sé nefnt. Það tekur enginn af okkur metnaðinn, menntunina og sköpunargleðina og þótt við séum nú í dýpstu efnahagslægð frá stofnun lýðveldisins þá er ég viss um að okkur muni takast að spyrna okkur kröftuglega frá þeim botni, hratt og örugglega.

Höfundur er bankastjóri Landsbankans.