Þemað á Nýsköpunardegi hins opinbera er „nýsköpun í opinberum sparnaði“. Ekki veitir af.

Útgjaldaaukning hins opinbera hefur verið gegndarlaus frá Covid árunum en töluvert lengur í Reykjavík þar sem Samfylkingunni og fylgitunglum hennar hefur tekist að safna gríðarlegum skuldum á einu lengsta hagvaxtarskeiði Íslandssögunnar. Besta hugmynd íslenskra stjórnmálamanna þegar kemur að sparnaði er sú að auka útgjöld hægar en áður.

Á heimasíðu Nýsköpunardags hins opinbera er spurt: Lumar þú á sparnaðarlausn sem nýtist í opinberum rekstri?

Sjálfsagt er að bjóða upp á slíkar hugmyndir og þarf ekki að leita lengra en í rekstur heimilisbókhaldsins. Í fyrsta lagi þarf að passa að útgjöld séu lægri en tekjur. Í öðru lagi að forðast að taka lán nema nauðsyn krefji, t.d. fyrir stærri fjárfestingar, og muna svo að greiða af þeim lánum í framhaldinu, og þá með tekjum en ekki nýjum lánum. Neyslulán eru slæm hugmynd nema í algjörri neyð. Ekki treysta á að vinna í happadrætti þegar fjárhagsáætlanir eru gerðar. Verðsamanburður getur borgað sig.

Hagnýtar lausnir sem eru nothæfar og þá helst til lengri tíma eiga að njóta forgangs umfram glingur og sýndarmennsku, en svolítið skraut má kaupa ef það er afgangur.

Þetta veit venjulegt fólk sem rekur venjuleg heimili. Þetta vita líka ábyrgir stjórnendur í einkafyrirtækjum sem þurfa að verja störf sín gagnvart eigendum og stjórn. Auðvelt er að sjá hvaða einkafyrirtæki eru illa rekin: Þau fara á hausinn.

Í tilviki hins opinbera eru skattgreiðendur látnir blæða ofan í botnlausa hítina þar til þeir ná varla andanum. Nýsköpun, sem snýr að því að forðast slíkt ástand, er því kærkomin. Sérstaklega vona ég að fulltrúar frá Reykjavík mæti, jafnvel þótt ráðstefnan sé innanlands og afli hvorki flugpunkta né hótelgistinga á kostnað útsvarsgreiðenda.